Þægileg innivinna?

Síðustu fjögur árin eftir Hrun voru skiljanlega afar annasöm á Alþingi og hjá þingmönnum. Þingið starfaði meira og minna alla mánuði ársins og þingmenn áttu ekki marga frídaga, skiljanlega, enda verkefnin ærin.
Nú er öldin önnur.
Alþingi starfaði ekki í nærri 5 mánuði á árinu 2013 og nú leggja þingmenn mikla áherslu á að komast í frí í næstu viku og mæta ekki aftur fyrr en í haust. Til að svo geti orðið virðist þegar hafa náðst einhvers konar samkomulag um að ríkisstjórnin nái öllum sínum helstu málum óbreyttum í gegn í næstu viku að undanskildu ESB-málinu sem bíður næsta þings. Það stefnir því allt í að Alþingi verði ekki starfandi í fjóra mánuði á yfirstandandi ári. Ástæðan er sögð sú að þingið eigi ekki að skyggja á sveitarstjórnarkosningarnar, sem er nú frekar afsökun en ástæða.
Þetta er með öllu óásættanlegt í lýðræðissamfélagi.
Alþingi á að starfa áfram að úrlausn stórra mála. Það á að fjalla vel og vandlega um lækkun veiðigjalds, stóru millifærsluna, ESB umsóknina og mörg önnur stór mál og taka sér þann tíma sem til þarf til að ná skynsamlegri niðurstöðu um mál, óháð árstíma og öðru.
Minna má það varla vera.
Nema það eigi að breyta þinginu aftur í þægilega innivinnu eins og fyrir Hrun?