Hvers vegna? Einföld spurning um kaupaukakerfi.

Það er ein ágætis regla sem þingmenn ættu að tileinka sér þegar nýtt lagafrumvarp er lagt fyrir Alþingi. Hún er sú að spyrja einfaldlega hver ástæða frumvarpsins sé. Til hvers er það lagt fram? Ef frumvarpið hefur það að markmiði að breyta fyrirliggjandi lögum að spyrja þá hvers vegna ætti að breyta þeim Þetta er mjög einföld regla sem þó er farið afar sparlega með.
Tökum dæmi:
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði á dögunum fram lagafrumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Verði frumvarpið að lögum mun það m.a. verða til þess að sérstakir kaupaukabónusar starfsmanna hjá fjármálafyrirtækjum geti orðið allt að tvöföldum árslaunum (sjá kafla um kaupaukakerfi). Það er engin skýring gefin á þessu í frumvarpinu, hvorki í frumvarpsgreinunum né skýringum með þeim. Það er bara einfaldlega tillaga Bjarna og ríkisstjórnarinnar að þannig eigi þetta að vera.
En hvers vegna? Hver er hvatinn til þess að breyta lögunum í þessum tilgangi? Hvert er markmiðið? Hver er að biðja um þetta? Af hverju ættu núgildandi lög að batna við þessa breytingu? Af hverju?
Spyrja einfaldra spurninga.
Þær kalla á skýr svör.