Ringulreið á stjórnarheimilinu

Talsvert uppnám virðist vera innan raða stjórnarflokkanna sem og á milli þeirra um stór mál. Báðir flokkarnir eru í frjálsu falli í fylgiskönnunum og málefnastaða þeirra gagnvart kjósendum er langt frá því góð. Það er fátt sem bendir til þess að það eigi eftir að batna nú þegar aðeins 12 þingdagar eru eftir á yfirstandandi þingi. Stóru málin sem áttu að fleyta stjórnarflokkunum til sigurs í kosningunum í vor hafa snúist í höndunum á þeim. Má þar nefna ESB málið og stóru millifærsluleið framsóknarmanna. Og svo er eitt eftir enn.
Sigurður Ingi Jóhannsson hefur boðað að nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða verði lagt fyrir þingið og afgreitt fyrir þinglok. Það frumvarp mun samkvæmt heimildum fela í sér endanlegt afsal aflaheimilda og afnám veiðigjalds. Nú heyrast þær raddir úr herbúðum stjórnarflokkanna að líklega sé best að bíða með það mál fram yfir kosningar enda er það ekki talið líklegt til að auka á vinsældir stjórnarflokkanna heldur þvert á móti. Um þetta er hins vegar deilt á milli stjórnarflokkanna þar sem sjálfstæðisflokkurinn telur sig geta unnið með það mál í sínu baklandi á meðan framsóknarmenn finna því ekki jarðveg hjá sínu liði.
Í stórum dráttum er þetta þá svona:
1. Stjórnarflokkarnir þurfa að landa ESB málinu þannig að báðir geti talað fyrir því fyrir kosningar.
2. Það þarf að lenda tillögum framsóknar um millifærsluna þannig að báðir flokkar geti talað fyrir þeim.
3. Það þarf að leggja fram frumvarp um stjórn fiskveiða og afnám veiðigjalds þannig að báðir flokkar geti við unað.
Vandinn er sá að hagsmunir stjórnarflokkanna fara ekki saman í þessum málum og ekkert þeirra er vel fallið til fylgisaukningar. Til að auka enn á vandræðin er ljóst að ef gera á breytingar á lögum um stjórn fiskveiða verður það að gerast vel fyrir 1. september þegar nýtt fiskveiðiár hefst.
Æ fleiri stjórnarliðar gera sér því grein fyrir því að afar ólíklegt sé að nokkurt þessara mála verði afgreitt á næstu 12 þingdögum. Flestir vilja nú fresta þeim fram yfir kosningar og reyna að fá fólk til að hugsa um eitthvað annað næstu vikurnar og vonast eftir ásættanlegum kosningaúrslitum. Það væri auðvitað mikill ósigur hjá stjórnarflokkunum sem gæti auðveldlega haft neikvæð áhrif á kosningabaráttu þeirra. Slæm úrslit í vor eru einnig líkleg til að auka á erfiðleika stjórnarflokkanna og setja mark sitt á áframhaldandi samstarf þeirra.
Það er því eðlilegt að skrafið á göngum flokksráðfundar sjálfstæðisflokksins sé ekkert sérstaklega jákvætt í garð flokksforystunnar sem þykir hafa haldið einstaklega illa á málum þann stutta tíma sem flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn.