Það virðist hafa komið mörgum á óvart að Steingrímur J. Sigfússon hafi ekki hundskammað Sigurð Inga Jóhannsson fyrir klúðrið í makrílmálinu þegar þeir tveir mættust í Kastljósinu í vikunni. Ærið var þó tilefnið. Þess í stað hóf Steingrímur sig sem oft áður yfir dægurþrasið og hin hefðbundnu viðbrögð stjórnmálamanna í slíkri stöðu. Það gerði hann vegna þess að hann skynjar alvöru málsins, gerir sér grein fyrir því hvað er í húfi og hvað staða Íslands er erfið. Það er einkenni góðra stjórnmálamanna að láta eigin hagsmuni víkja fyrir sameiginlegum hagsmunum. Það gerði Steingrímur öfugt við flesta aðra.
Ég man aldrei til þess að formenn núverandi stjórnarflokka hafi tekið þannig á nokkru máli þegar þeir voru í stjórnarandstöðu árin eftir Hrun. Þvert á móti völdu þeir alltaf og ævinlega auðveldu leiðina og létu flokkslega skammtímahagsmuni ráða en sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar lönd og leið. Það er auðvelt að ímynda sér viðbrögð þeirra í þessu máli sætu þeir hinum megin borðsins í dag.
Björn Ingi Hrafnsson er einn þeirra sem undrast framgöngu Steingríms enda ekki vanur slíku úr röðum sinna flokksmanna þó hann treysti sér ekki til að gera það undir nafni. Það á við um fleiri og er reyndar merkilegt hvað fjölmiðlar sem vilja taka sig alvarlega eru litlir í sér þegar kemur að skrifum um Steingrím J. Sigfússon. Það má þó Jón ræfillinn Bjarnason eiga að hann virðist láta sig litlu varða um æru sína eða heiður í þessum efnum.
Það hefur enn og aftur komið í ljós að Steingrímur J Sigfússon ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska stjórnmálamenn.