Eins og kunnugt er stendur til að efna stærsta kosningaloforð veraldarsögunnar með því að millifæra 80 milljarða af skatttekjum ríkisins til innan við helmings íslenskra heimila og slá 70 milljarða af sköttum þeirra sem geta notað sparnað til að greiða niður skuldir sínar.
Í stuttu máli: Hugmyndin er að millifæra á 150 milljarða af skatttekjum ríkisins til innan við helmings heimila í landinu, þess helmings sem best er settur fjárhagslega.
Nú heitir þetta hins vegar að „Gert er ráð fyrir að ríkissjóður hafi milligöngu um fjármögnun og framkvæmd.“ Það er nú frekar vægt til orða tekið, þegar það liggur fyrir að kostnaðurinn muni allur verða greiddur af sameiginlegum skatttekjum okkar allra.
Tryggvi Þór Herbertsson mun sjá um almenna útfærslu og útreikninga á millifærslunni. Hann hefur bæði sagt að þetta sé tiltölulega einfalt mál og einnig að það sé gríðarlega flókið, jafnvel ómögulegt og verði tæpast leyst nema með enn einu Íslandsmeti.
Ef markmiði stjórnvalda er að gera sig óskiljanleg, þá er það að takast.