Gengisfelling? Nei, takk!

Forstjórar tveggja stórra sjávarútvegsfyrirtækja telja gengi íslensku krónunnar óraunhæft. Að þeirra mati er hún of hátt metin sem dregur úr tekjum sjávarútvegsins í krónum talið. Þótt það sé ekki sagt berum orðum eru þeir að óska eftir því að verðgildi krónnunar verði rýrt. Þó er krónan nú meira en þriðjungi lægri en hún var árið 2008 gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum sem við eigum í viðskiptum með og 50 -85% lægri en hún var fyrir tíu árum (sjá mynd).
Þeir félagar hafa samt nokkuð til síns máls. Krónan er rangt metin. Það er hins vegar erfitt að átta sig á því hvort hún er of hátt metin eða of lágt. Krónan er fyrst og síðast ónýtur gjaldmiðill í viðskiptum milli landa. Þannig séð er hún lítils sem einskis virði og því allt of hátt metin.
Íslensk útgerð þarf ekki frekar en aðrar atvinnugreinar á gengisfellingu að halda. Íslenskur almenningur og heimili þurfa ekki heldur á gengisfellingu að halda. Við þurfum fyrst og síðast öll á því að halda að búa við stöðugleika í gengismálum sem öðru. Við þurfum að geta treyst því að vandi sumra verði ekki leystur tímabundið á kostnað annarra með gengisfellingum. Skiptir þá engu hverjir eiga í hlut. Þannig verður það hins vegar aldrei á meðan við notum íslensku krónuna.
Svo einfalt er nú það.