320 milljóna starfslok!

Lífeyrissjóðirnir eru stórir hluthafar í mörgum fyrirtækjum í Kauphöllinni. Sem er bara ágætt og til vitnis um að þeir eru að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Fjárfesting þeirra í Icelandair í gegnum Framtakssjóðinn var t.d. dæmi um mjög vel heppnaða fjárfestingu sem hjálpaði því fyrirtæki á erfiðum tímum eftir Hrun. Og sennilega hjálpaði viðreisn Icelandair landinu öllu ef út í það er farið.
Það hefur verið rætt talsvert um að gjaldeyrishöftin hafi þau áhrif að verðbóla muni myndast í Kauphöllinni sem er auðvitað vel hugsanlegt. En það er þó ekki beint við lífeyrissjóðina að sakast í þeim efnum því að þeir hafa, jú, takmarkaða möguleika á að ávaxta lífeyrisgreiðslur launþega innanlands. Það er hins vegar mikilvægt þegar lífeyrissjóðirnir eru orðnir svo fyrirferðarmiklir í atvinnulífinu og hluthafar í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins að vel sé gætt að því að þeir gæti alltaf hagsmuna þeirra sem greiða í sjóðina en ekki annarra.
Nýlega urðu forstjóraskipti í Marel. Engin stórfrétt sem slík – eða hvað?
Í kynningu vegna afkomu Marels í síðustu viku kom fram að kostnaður vegna forstjóraskiptanna (bls. 7) næmi 2 milljónum evra eða um 320 milljónum króna! Það hefur ekki heyrst bofs í fulltrúum lífeyrissjóðanna um þessa greiðslu til forstjórans. Þó eru þeir stórir hluthafar í Marel. Hvernig stendur eiginlega á því? 320 milljónir eru gríðarleg fjárhæð og það er við svona aðstæður sem fulltrúar lífeyrissjóðanna eiga að láta í sér heyra  og gera athugasemdir. Nema þeir hafi annarra hagsmuna að gæta? 
Helgi Magnússon situr í stjórn Marels og er sömuleiðis stór hluthafi í fyrirtækinu. Hann situr einnig í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, þar sem hann er varaformaður. Helgi Magnússon situr í fleiri stjórnum fyrirtækja sem fjárfestir, jafnvel í stjórnum fyrirtækja þar sem lífeyrissjóðirnir eru einnig hluthafar.
Hvort ætli sé líklegra að Helgi gæti frekar eigin hagsmuna eða hagsmuna launþega?
Er kannski dónalegt að spyrja?