Nú er nýlokið fundi flokksráðs Vinstri grænna. Í ræðu minni við upphaf fundarins ræddi ég um lýðræðisleg stjórnmál og vitnaði m.a. til nýrrar bókar Páls Skúlasonar fyrrum rektors Háskóla Íslands, Ríkið og rökvísi stjórnmálanna. Páll segir þar réttilega að lýðræðið eitt og sér dugi engan veginn til að tryggja skynsamlegum stjórnmál heldur þurfi að vera fyrir hendi ákveðnar aðferðir og reglur sem menn skilji og kunni að beita rétt.
Ég fjallaði einnig um mikilvægi þess að allar ákvarðanir verði teknar með hagsmuni framtíðar í huga. Það verður best gert með samræðum og rökræðum innan sem utan stjórnmálanna þar sem raddir sem flestra fái að hljóma.
Ég hvatti einnig til þess í ræðu minni að kosið verði um framhald viðræðna um aðild að ESB samhliða sveitastjórnarkosningunum í vor. Málið er að mínu mati í algjörum hnút í fangi stjórnmálaflokkanna og því verður þjóðin að taka af skarið og þá með hagsmuni framtíðarinnar í huga umfram annað.
Þessa ágætu ræðu má finna hér.