Hvað veit Björn Ingi?

Björn Ingi Hrafnsson eigandi Eyjunnar, óopinberrar vefsíðu framsóknarflokksins, hefur lengi verið með fingurna á púlsi íslenskra stjórnmála: Hann er sagður vera með eitt næmasta pólitíska nef sem vitað er um í dag og bera af öðrum við að greina leikfléttur og pólitíska taflmennsku. Það er því ekki að ástæðulausu að við áhugamenn um stjórnmál sperrum vitin þegar nafni  minn lætur eitthvað frá sér um þann hrjóstruga vettvang.
Björn Ingi skrifar í dag afar athyglisverðan pistil um fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur sem vill fá að vita um kostnað af ferðalögum forsetans og sambýliskonu hans um heiminn. Við fyrstu sýn mætti ætla að um sárasaklausa fyrirspurn sé að ræða. En Björn Ingi er eldri en næturgamall í pólitík eins og áður hefur komið fram og sleipur í sínum fræðum.  Hann sér að Svandís er með fyrirspurninni að hefna sín á forsetanum fyrir meintar fortíðarsyndir hans. Sem er athyglisverð kenning og alls ekki vitlausari en margt annað sem svífur um netheiminn. En í hverju væri sú hefnd falin? Hvernig er hægt að hefna sín á forsetanum og sambýliskonunni með slíkri fyrirspurn? Það hlýtur að felast í svari við fyrirspurninni. Hvað er það þá sem að mati Björns Inga gæti komið Bessastaðaparinu illa og um leið fullnægt hefndarþorsta Svandísar ef fyrirspurninni verður svarað? Hvað veit Björn Ingi sem er öðrum hulið í þessu máli?
Ef það er eitthvað sem kvelur mig innan og heldur mér andvaka þá er það þegar svona spurningar hanga ósvaraðar í loftinu. Sérstaklega þegar maður veit að það er einhver sem veit svörin en vill ekki segja frá.
Eins og Björn Ingi Hrafnsson gerir í þessu tilfelli.