Niðurstöður PISA eru óviðunandi og mikill áfellisdómur, segir fólk, án þess að vita hverju er um að kenna.
En hvað með börnin? Hefur einhverjum dottið í hug að spyrja þau hvað þeim finnist um að talað sé til þeirra með þessum hætti? Að þau séu meira og minna misheppnuð, vitlaus og slakari en önnur börn? Hvernig líður þeim undir þessari umræðu? Börn eru mælitæki í svona rannsóknum. Niðurstöður rannsóknanna eru lesnar af prófblöðum barna. Fullorðið fólk ætti að hafa það í huga áður en það tjáir sig um niðurstöðurnar.
Hvað finnst þeim um PISA? Hvað finnst þeim um að rætt sé um þau með þessum hætti? Að þau séu heimskari en önnur börn?
Af hverju eru börnin ekki spurð?
Miðað við umræðuna að börnum áheyrandi, gæti spurningin verið einhvern veginn svona:
„Hvernig finnst ykkur að vera svona vitlaus?“