Er þetta það sem um var rætt?

Samkvæmt því sem fram hefur komið ætlar ríkisstjórnin að efna stóra loforð framsóknarflokksins í stórum dráttum svona:
1. Ríkissjóður ábyrgist lækkun á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána um 80 mia.kr.
2. Launþegum verður boðið að greiða höfuðstól lána sinna niður um 70 mia.kr. með sérstökum skattlausum sparnaði.
Þetta mun þá leiða til þess að til viðbótar þessum 80 mia.kr. sem ríkið ábyrgist, gefur það eftir skatttekjur af séreignasparnaðinum, þ.e. af 70 mia.kr. Sveitarfélögin munu þá væntanlega einnig verða af útsvarstekjum af sömu upphæð. Auk þess verða ríki og sveitarfélög af skatttekjum af vöxtum af séreignasparnaðinum sem komið hefði til ef séreignin hefði ávaxtað sig áfram. Þessu til viðbótar felst kostnaður ríkis og sveitarfélaga í auknum hallarekstri og lántökum nema skera eigi niður á móti þessum kostnaði.
Samanlagður áætlaður kostnaður ríkissjóðs og sveitarfélaga samkvæmt framansögðu gæti því verið vel yfir 100 mia.kr. þegar upp verður staðið. Honum er að stærstum hluta vísað inn í framtíðina.
Samantekið: Verðtryggð húsnæðislán landsmanna verða lækkuð um 6-7% og ríkið (við öll) ábyrgjumst greiðsluna, 80 mia.kr. Önnur niðurfærsla verðtryggðra lána verður ákvörðun launþega, af þeirra launum og á þeirra ábyrgð.
Og lánin verða áfram verðtryggð.
Eins og um var rætt.
Ekki satt?