Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru aðeins tólf þingfundardagar eftir á þessu ári. Á þessum tólf dögum stendur til að afgreiða mörg stór mál. Sum þeirra eru enn ekki komin til þingsins, líkt og frumvarp til fjáraukalaga, en fjáraukalög hafa verið afgreidd og lögfest á þessum tíma á undanförnum árum. Frumvarp til fjáraukalaga 2012 var t.d. lagt fram 20. september og samþykkt sem lög 19. nóvember og frumvarp til fjáraukalaga 2011 var lögfest 17. nóvember. Ágreiningur og óeining milli stjórnarflokkanna um fjáraukalög ársins er sögð skýring fyrir þessum seinagangi. Svo eru mörg önnur stórmál sem bíða umræðu og afgreiðslu, t.d. fjárlagafrumvarp næsta árs sem er síðar á ferðinni en hingað til sem og tekjuöflunarmál sömuleiðis, auk ótal annarra mála eins og gengur.
Það eru hins vegar aðeins þrír þingdagar eftir í nóvember. Það er sá tími sem ætlaður er til að ræða og afgreiða ágreiningsmál stjórnarflokkanna um boðaða niðurfellingu húsnæðisskulda. Það hljóta allir að átta sig á því að það muni ekki gerast.