Sigur Halldórs Halldórssonar í prófkjöri sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mun hafa meiri áhrif en ætla mætti í fyrstu. Fyrir það fyrsta felst í þeim ákveðið vantraust á þá sem fyrir lágu á fleti, borgarfulltrúa flokksins. Það má búast við því að einhverjir þeirra líti nú svo á að þeirra sé ekki lengur þörf á þessum vettvangi. Sem er rétt miðað við niðurstöðu prófkjörsins. Prófkjörið opinberar einnig ákveðna fátækt í mannvali sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það stendur enginn upp úr, hvergi ris og heldur engin sérstök lægð. Niðurstaða prófkjörsins er óspennandi, pólitísk flatneskja sem er ólíkleg til að laða kjósendur að flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn er í raun fjær því en áður að ná vopnum sínum í Reykjavík.
Mestu pólitísku áhrifin til framtíðar er þau að leiðtogi sjálfstæðismanna í Reykjavík er yfirlýstur fylgismaður þess að ljúka aðildarviðræðunum við ESB. Það hefur án vafa haft áhrif á þá sem tóku þátt í prófkjörinu og er ein skýringa á góðu gengi Halldórs. Í prófkjörinu felast því ákveðin skilaboð til forystu flokksins á Alþingi sem hljóta að verða rædd á þeim vettvangi og í samstarfi stjórnarflokkanna í ríkisstjórn. Það er ólíklegt annað en að Halldór muni í krafti þess stuðnings sem hann fékk og aukins vægi innan sjálfstæðisflokksins beita sér af meiri krafti fyrir því að ESB umsóknin verði kláruð til enda.
Ég hef átt ágætt samstarf við Halldór í gegnum árin á vettvangi stjórnmálanna og hef ekkert nema gott af samskiptum mínum við hann að segja, þótt seint verðum við sammála um meginmálin. Hann er góður og gegn íhaldsmaður sem er líklegur til að koma í veg fyrir frekara fall sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
En ekkert umfram það.