Hundrað milljarða leiðari Kjarnans

Fjallað er um yfirvofandi kvótasetningu makríls í leiðara nýjustu útgáfu Kjarnans. Þar segir m.a.: „Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins stendur nú frammi fyrir risaákvörðun. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir að makrílkvótinn verði settur varanlega inn í kvótakerfi á næsta ári og mið verði tekið af aflareynslu skipa. Þetta er sakleysisleg fyrirætlan en hefur mikið vægi.“
Magnús Halldórsson, höfundur leiðarans, bendir á að með kvótasetningunni verði verðmætum upp á um 100 milljarða króna ráðstafað til framtíðar án endurgjalds.
„Þetta eru gríðarleg peningaleg verðmæti sem Sigurður Ingi og ríkisstjórnin eru með í höndunum í umboði almennings. Vonandi hvarflar ekki að neinum að gefa þessi verðmæti. Það væri algjört glapræði í ljósi slæmrar stöðu ríkissjóðs og augljós spilling að auki, á kostnað almennings.“
Fá mál hafa klofið þjóðina meir á undanförnum áratugum en ráðstöfun og meðhöndlun aflaheimilda. Nú virðist sem svo að stjórnvöld ætli að bera olíu á þann eld með kvótasetningu makríls. Miðað við áformin yrði um að ræða stærstu eignatilfærslu sem orðið hefur á Íslandi.
Það gera sér allir grein fyrir því að það þarf að stjórna veiðum og stýra nýtingu á takmörkuðum auðlindum. Flestir gera sér grein fyrir að það þarf að gera þannig að sem mest verðmæti skapist með hagkvæmum hætti. Fáir virðast gera sér grein fyrir því að fiskveiðar og -vinnsla verður aldrei eins og áður var. Það verða aldrei aftur margar fiskvinnslur í hverju þorpi og sami fjöldi báta og áður var. Fæstir eru þeirrar skoðunar að ráðstafa eigi aflaheimildum til frambúðar með sama hætti og gert hefur verið. Flestir vita að það eru til aðrar leiðir.
Nú er tækifæri til að bera klæði á vopnin og slökkva eldana. Bíðum því aðeins, hugsum málið og tölum saman áður en lengra verður haldið. Það liggur ekkert á.
Okkur ber skylda til að finna lausnir í stað þess að viðhalda ágreiningi.