Skömm Eyjunnar

Eigendur og nafnlausir pennar Eyjunnar hafa aldrei farið leynt með andúð sína og óbeit á Steingrími J. Sigfússyni. Nú hafa þeir hins vegar gengið lengra en áður hefur þekkst hér á landi og gerist vonandi ekki aftur. Í pistli, sem talinn er vera skrifaður af Birni Inga Hrafnssyni, er því haldið fram að Steingrímur nýti sér sorglegt andlát ungrar dóttur Jóns Bjarnasonar til að vega pólitískt að Jóni. Þannig á Steingrímur að mati Eyjunnar að hafa nýtt tækfærið þegar varnir Jóns og fjölskyldu hans voru sem veikastar í kjölfar andláts dóttur hans til að víkja honum úr ríkisstjórn. Eyjan gengur svo enn lengra og segir Steingrím beinlínis njóta þess að láta kné fylgja kviði „úr mjúku sæti sínu á Alþingi“ í nýrri bók sinni, í stað þess að bera smyrsl á sárin sem andlát ungrar dóttur risti í hennar nánustu fjölskyldu.
Jafn hatursfull pólitísk skrif hafa tæplega sést fyrr í íslenskum fjölmiðlum. Björn Ingi Hrafnsson og liðsmenn hans á Eyjunni hafa dregið pólitíska umræðu niður í fen sem þeir eru vonandi einir að sullast í.
Hafi þeir skömm fyrir.