Smávegis um veiðigjöld

Það er rétt hjá Daða Má Kristóferssyni að veiðigjald á litlar og meðalstórar útgerðir á að vera með öðrum hætti en á þær stærstu. Enda var það þannig í lögum um veiðigjald áður en þeim var breytt sl. sumar. Þannig greiddu útgerðir með undir 30 tonna heimildir ekkert sérstakt veiðigjald og útgerðir með heimildir á bilinu 30 – 70 tonn greiddu hálft veiðigjald. Minnihluti þingsins gerði síðan tillögu um það á sumarþingi að frímark yrði aukið úr 30 tonnum í 50 tonn og hálfa gjaldið upp í 250 tonn. Með þeim hætti myndu 324 litlar útgerðir ekki greiða neitt sérstakt veiðigjald og 102 aðeins hálft gjald á meðan stóru útgerðirnar greiddu áfram fullt gjald. Lagðir vor fram ýtarlegir útreikningar og gögn sem sýndu fram á að þessar tillögur myndu ná tilætluðu markmiði. Hægriflokkarnir snerust gegn þessu, þurrkuðu sérstakt veiðigjald á botnfisk svo til alveg út og skákuðu í því skjólinu að tilgangurinn væri að ná til lítilla fyrirtækja. Hvorki ráðherra né meirihluti þingsins lagði fram gögn eða útreikninga máli sínu til stuðnings, enda stóðust fullyrðingar þeirra ekki skoðun. Stærsti hluti niðurfellingarinnar kom í hlut stóru fyrirtækjanna eins og allir vita núna.
Niðurstaðan í veiðigjaldamálinu í sumar endurspeglaði átök sem urðu á bak við tjöldin, annars vegar innan útgerðarinnar og hins vegar á milli stjórnarflokkanna. Þar urðu stórar botnfiskútgerðir ofan á og fengu allt sitt fram enda margir þingmenn tengdir þeim útgerðum, annaðhvort sem eigendur eða með óbeinum hætti.