Hvar er SDG?

Fjölmiðlar verða ekki sakaðir um að segja ekki vel og skilmerkilega frá ferðum og framgöngu forsætisráðherra landsins. Sagt hefur verið frá því að hann og Obama hafi átt saman kvöldverð, hann hafi gefið Obama góð ráð, ráðherrann hafi verið í Nike skóm á öðrum fæti í matarboðinu, hann sé með sýkingu í fæti og að ráðherrann hafi fengið sýklalyf á Karólínska sjúkrahúsinu. Einnig var frá því sagt að hann hafi leitt umræður um norðurslóðamál á fundi sínum með Obama eftir að aðrir forsætisráðherrar Norðurlandanna voru mættir til leiks. Það fer reyndar tvennum sögum af því þar sem Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, segir að það hafi í rauninni ekki verið neinar viðræður, heldur hafi norðurslóðamálin borið á góma með almennum hætti. En það er aukaatriði.
Sjálfur segir svo SDG að verið sé að dreifa um hann alls konar kjaftasögum (frá elleftu mínútu) sem enginn virðist samt hafa heyrt. Enda hljóta þær að eiga erfitt uppdráttar í samkeppni við „alvöru fréttir“ af forsætisráðherranum.