Þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við völdum árið 2009 sátu 12 ráðherrar við ríkisstjórnarborðið í enn fleiri ráðuneytum. Við lok tímabilsins voru ráðherrarnir orðnir átta í jafn mörgum ráðuneytum. Ég er reyndar sjálfur þeirrar skoðunar að nóg sé að vera með sex ráðherra í ríkisstjórn, umfangið er ekki svo mikið að það kalli á fleiri. En hvað um það.
Ástæða þess að ráðherrum var fækkað og ráðuneyti sameinuð var einfaldlega sú að stjórnsýslan var óskilvirk, flókin og verkefni ráðuneyta skörðust á mörgum sviðum. Þetta tóks vel að flestra mati og engin fagleg rök hafa enn komið fram sem benda til þess að rétt sé að fjölga ráðherrum að nýju eða skipta upp ráðuneytum.
Ríkisstjórn hægriflokkanna ákvað hins vegar að fjölga um einn ráðherra og splitta ráðuneytum sem sameinuð höfðu verið með góðum árangri. Og nú á að bæta einum ráðherra við til viðbótar og búta ráðuneytin niður í fleiri einingar. Fyrir þessu eru engin fagleg rök og engar sérstakar ástæður hafa verið gefnar fyrir þessu.
Eina haldbæra ástæðan virðist vera sú að það þurfi að koma heimtufrekum þingmönnum fyrir í ráðuneytum og ríkisstjórn. Það er ástæða út af fyrir sig sem oftar en ekki hefur verið notuð í þessum tilgangi í gegnum árin og áratugina.
Ekki síst af framsóknarflokknum.