Raunverulegur tilgangur forsætisráðherra framsóknar með þingsályktunartillögu sinni um aðgerðir í efnahagsmálum var að þvinga sjálfstæðismenn til fylgis við tillögurnar. Og það gerðu þeir þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu margra þingmanna flokksins við málatilbúnað framsóknar. Um þetta vitnaði Vilhjálmur Bjarnason í þættinum Vikulokin á RÚV og áður hafði Brynjar Níelsson sömuleiðis efast um skynsemi tillagna framsóknar og tekið undir með fyrrverandi þingmanni Vinstri grænna í þeim efnum. Stuttu fyrir kosningar lýsti formaður sjálfstæðisflokksins því yfir að tillögur framsóknarflokksins í efnahagsmálum væru óraunsæjar og óframkvæmanlegar. Þrátt fyrir þetta sáu allir þingmenn sjálfstæðisflokksins sig knúna til að ganga framsóknarmönnum á hönd með því að styðja tillögur forsætisráðherra framsóknar.
Staða sjálfstæðismanna í dag er sú sama og Geir H Haarde lýsti í skýrslu RNA um ríkisstjórnarsamstarf þessara tveggja flokka árið 2003: "Þetta voru hrein mistök og því miður verður maður að viðurkenna hreinskilnislega að um þetta hafði maður náttúrlega miklar efasemdir, en um þetta var samið við ríkisstjórnarmyndunina 2003 og ef það hefði ekki verið gert þá hefði sú ríkisstjórn ekki verið mynduð.“
Það sama á við í dag. Ef sjálfstæðismenn hefðu ekki tekið undir vitleysuna í framsókn hefði ríkisstjórn þeirra ekki verið mynduð. Rétt eins og vorið 2003.
Það góða við þetta er að það þarf ekki að vinna sérstaka rannsóknarskýrslu um afleiðingarnar sem af þessu munu hljótast.
Slík skýrsla hefur þegar verið skrifuð um nákvæmlega sama mál.