Þann 23. júní 2011 voru gerðar breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Meðal þeirra breytinga sem þá voru gerðar var að þing myndi koma saman annan þriðjudag septembermánaðar 2013. Orðrétt segir í 1.gr. laganna: „Samkomudagur Alþingis er annar þriðjudagur í september, sbr. 35. gr. stjórnarskrárinnar.“
Í kjölfarið var allri vinnu við fjárlagagerðina flýtt strax á árinu 2012 og aftur eftir það í þeim tilgangi að þau yrðu lögð fram á réttum tíma haustið 2013. Það er því kolrangt hjá formanni sjálfstæðisflokksins að ríkisstjórn hafi aldrei haft eins naumann tíma til að spila úr eins og hægristjórnin hefur núna að þessu leiti. Aðlögunartíminn er heil tvö ár og stjórnsýslan öll lagað sig að breyttum lögum á þeim tíma. Ríkisstjórnin hefur hinsvegar sjálf skapað sér vandræði með málatilbúnaði sínum sem snýr fyrst og síðast að því að veikja tekjuöflun ríkissjóðs og auka á útgjöld eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær.
Ef þingsetningu verður frestað fram í október eins og formenn stjórnarflokkanna hafa óskað eftir, mun Alþingi ekki vera að störfum í nærri 5 mánuði á árinu 2013. Það er ekki hægt að bjóða upp á slíkt hjá þjóð sem vill búa við þingræði.
Nema ætlunin sé að breyta því líka.