Vinna við gerð fjárlaga næsta árs er væntanlega í hámarki þessa dagana. Fjárlög á að leggja fram á fyrsta degi nýs þings sem er fyrsti þriðjudagur septembermánaðar samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis. Þá skal liggja fyrir fjárlagafrumvarp næsta árs eins og segir til um í 42.gr. stjórnarskrár Íslands. Því frumvarpi á að fylgja áætlun um skiptingu útgjalda ríkisins næsta fjárlagaár, tekjur og gjöld eins og gefur að skilja.
Nú þegar liggur fyrir að ríkisstjórn hægriflokkanna er búin að rótast svo í fjárlögum yfirstandandi árs og leggja grunn að því næsta með ýmsum hætti að það hlýtur að fara að valda nýjum fjármálaráðherra verulegum áhyggjum hvernig hann á að ná að berja saman fjárlög svo vel fari. Nú þegar hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um eða boðað tekjusamdrátt og útgjaldaaukningu upp á ríflega 30 milljarða króna sem er u.þ.b. milljarður á dag frá því hún tók við völdum. Munar þar mest um minni tekjur af veiðigjaldi (9-10 mia.kr.), VSK af ferðaþjónustu (1,5 mia.kr.), afnám auðlegðarskatts (7 mia.kr.), auk þess sem nefna má lækkun tryggingargjalds, vörugjalda á bensín og olíu og fleira smálegt ( 5-7 mia.kr.), aukin útgjöld vegna almannatrygginga (5-6 mia.kr.), boðuð útgjöld vegna rekstrar á Landspítalanum (12-13 mia.kr.), svo fátt eitt sé til talið – að ógleymdu stóra kosningaloforði framsóknarflokksins.
Það mætti segja mér að dagarnir séu orðnir langir hjá nýja fjármálaráðherranum og eigi enn eftir að lengjast ef hann ætlar að koma saman fjárlögum til að leggja fram fyrsta þriðjudaginn í september. Kannski er ríkisstjórnin farin að undirbúa september án þriðjudaga í ár til að komast hjá því að setja nýtt þing og leggja fram fjárlög og hafa bara fleiri þriðjudaga í október í staðinn? Það kæmi mér ekki á óvart.
Þau eru svo lausnamiðuð í ríkisstjórninni.