Landsdómsmálið

Mér sýnist að umræðan um ályktun þings Evrópuráðsins  um ábyrgð stjórnmálamanna sé að snúast  í einhver undarlegheit og skautað sé fram hjá nokkrum mikilvægum atriðum þess máls í samhengi við landsdóminn yfir Geir H. Haarde. Í fyrsta lagi er hér um almenna ályktun að ræða sem vel má taka undir að ýmsu leyti. Í öðru lagi tekur ályktunin enga afstöðu til dómsmálsins gagnvart Geir H. Haarde fyrrverandi formanni sjálfstæðisflokksins. Í þriðja lagi gerir ályktunin ekki ráð fyrir  að ábyrgð verði létt af ráðherrum, heldur að þeir verði sóttir til saka á grundvelli almennra hegningarlaga eins og annað fólk ef grunur leikur á  að þeir hafi brotið af sér. Í fjórða lagi er ekki tekið tillit til þess að ráðherraábyrgð á Íslandi er byggð á 14.gr. stjórnarskrárinnar og lögum um ráðherraábyrgð og því ómögulegt fyrir þing og þjóð annað en að bregðast við ef ráðherrar eru taldir hafa gerst brotlegir. Í fimmta lagi var ákæran á hendur Geir H. Haarde byggð á niðurstöðu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem skipuð var af Geir sjálfum og kemst að því að þrír ráðherrar hafi sýnt af sér mikla vanrækslu í starfi (bls.46). Í sjötta lagi komst þverpólitísk þingnefnd að sömu niðurstöðu að vel athuguðu máli og lagði til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir fyrir brot í starfi. Þingmenn allra flokka nema sjálfstæðisflokksins stóðu að þeirri tillögu, þ.m.t. tveir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn.
Aðalatriðið í þessu máli er og hefur alltaf verið að Alþingi ákvað að draga Geir einan fyrir Landsdóm en ekki hina þrjá sem þó var samstaða um að rétt væri að gera, bæði af Rannsóknarnefnd Alþingis og sérstakri þingmannanefnd undir forystu Atla Gíslasonar.
Þetta breytir hins vegar engu um niðurstöðu Landsdóms í máli Geirs H Haarde, sekt hans eða sakleysi. Sá dómur stendur óhaggaður, reistur á vandaðri umfjöllun æðsta dómstóls landsins, hvað sem okkur kann að finnast um málatilbúnaðinn.