Jón grínari

Í umræðum á Alþingi um Ríkisútvarpið í mars sl. sagði Jón Gunnarsson það markmið sjálfstæðismanna að „fækka Samfylkingar- og VG liðum á fréttastofu RÚV.“ Hann sagðist síðar hafa verið að grínast, enda er Jón mikill grínari og þekktur húmoristi. Nú, rúmum tveim mánuðum síðar, er grínið hinsvegar komið aftur til þings og þá í formi frumvarps mennta- og menningarmálaráðherra. Þar er lagt til að lögum um Ríkisútvarpið verði breytt þannig að Alþingi skipi stjórn Útvarpsins í hlutfalli við styrk flokkanna á þingi. Núgildandi lög kveða á um að fimm af sjö manna stjórn RÚV sé skipuð af sérstakri valnefnd og samkvæmt skilgreindum markmiðum, einn af starfsmönnum RÚV og ráðherra sem skipar svo formann stjórnar.
Nú stendur til að breyta þessu aftur til þess vegar þegar gamla helmingaskiptastjórn sjálfstæðis- og framsóknarflokksins var með meirihluta á þinginu og allt var eins og það átti að vera. Ríkisútvarpið skal því stjórnmálavætt og stjórnað af pólitískum fulltrúum stjórnarflokkanna. Næsta skref verður svo væntanlega að ráða pólitískan útvarpsstjóra til að fylgja málum frekar eftir.
Grínið getur stundum verið grafalvarlegt.