Átta nefnda áætlunin!

Ríkisstjórnin lagði fram þingsályktunartillögu í dag um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Á tillögunni er hinsvegar sá ágalli að í henni felast engar aðgerðir. Hún mun því í engu breyta um stöðu heimilanna í dag. Með tillögunni er ríkisstjórnin í rauninni að biðja þingið um að biðja sig um að setja á fót átta nefndir og starfshópa.
Skoðum þetta í fljótheitum:

  1. Settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Tillögur liggi fyrir í nóvember 2013.
    1. Hér á að setja á fót starfshóp. Hann á að skila tillögum sínum svo seint á árinu að ljóst er að ekkert verður úr framkvæmdum á næsta fjárlagaári. Mun engu breyta um stöðu heimilanna í dag.
  2. Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána. Tillögur að mögulegum útfærslum liggi fyrir í nóvember 2013.
    1. Hér á að gera úttekt. Skila á tillögum svo seint á árinu að ljóst er að ekkert verður úr framkvæmdum á næsta fjárlagaári. Mun engu breyta um stöðu heimilanna í dag.
  3. Kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir.
    1. Hér á að gera úttekt eða könnun. Mun litlu sem engu breyta um stöðu heimilanna í dag.
  4. Skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Tillögur liggi fyrir í upphafi árs 2014.
    1. Hér á að skipa verkefnastjórn sem á að skila tillögum á næsta ári. Mun engu breyta um stöðu heimilanna í dag.
  5. Lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu.
    1. Er eitthvað sem meinar dómstólum að flýta málum í dag. Mikill minnihluti húsnæðislána er gengistryggður og þegar er búið að endurreikna stærsta hluta þeirra. Hefur lítið sem ekkert með stöðu heimilanna að gera í dag.
  6. Settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í lok árs 2013.
    1. Hér á að setja á fót starfshóp. Þegar liggja fyrir margar skýrslur margra starfshópa um sama mál, síðast þverpólitískur hópur undir formennsku Eyglóar Harðardóttur. Hefur engin áhrif á stöðu heimilanna í dag.
  7. Kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu.
    1. Hér á að gera á könnun. Hefur engin áhrif á stöðu heimilanna í dag.
  8. Sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána.
    1. Hér á að setja á fót starfshóp. Hefur lítil sem engin áhrif á stöðu heimilanna í dag.
  9. Stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota.
    1. Stimpilgjöld af fyrstu kaupum voru afnumin á síðasta kjörtímabili. Hefur engin áhrif á stöðu heimilanna í dag.
  10. Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja
    1. Hvaða upplýsingar eru það sem Hagstofan hefur ekki um stöðu heimilanna? Það hefur ekki verið útskýrt. Hefur engin áhrif á stöðu heimilanna í dag.

Forsætisráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu mála í upphafi haustþings 2013 og síðan aftur í upphafi vorþings 2014. Hverskonar skýrsla verður það þegar tillögur að aðeins þrem af tíu atriðum eiga að vera tilbúin í september??? Önnur skýrsla á vorþingi 2014 bendir til þess að ekki sé gert ráð fyrir aðgerðum fyrir þann tíma.

Hversu oft er hægt að svíkja sama loforðið?