Til varnar mínu fólki!

Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi þingmaður og ráðherra vandar pólitískum félögum sínum í Samfylkingunni ekki kveðjurnar í helgarblaði DV. Þar fer hann háðulegum orðum um þingmenn flokksins, kallar þá kjána sem hafi klúðrað stærstu málum kjörtímabilsins og gerir lítið úr verkum þeirra að öðru leiti. Þau verk voru þó flest hver af annarri stærðargráðu en Sighvatur sjálfur þurfti nokkru sinni að glíma við í sínu fyrra pólitíska lífi, sem betur fer.
Sighvatur segir þrjú stærstu málin hafa verið umsóknin að ESB, endurskoðun stjórnarskráarinnar og breytingu á kvótakerfinu. Allt segir hann þetta hafa allt algjörlega mistekist.
Þvílík endemis vitleysa!
Þrjú stærstu mál síðasta kjörtímabisl voru í þessari röð:
Bjarga Íslandi frá gjaldþroti. Það tókst.
Slá skjaldborg um heimilin og velferðina. Það tókst.
Koma í veg fyrir stórkostlegt atvinnuleysi. Það tókst.
Við þennan lista mætti síðan bæta við nýju skattkerfi sem gerði það að verkum að 60% heimila í landinu býr við lægri eða sömu skattbyrði og fyrir Hrun. Það mætti jafnvel nefna í þessu sambandi að byggja þurfti upp trúnað og traust á Íslandi á alþjóðavettvangi eftir mestu pólitísku spillingu sem uppvíst hefur verið um hér á landi í kjölfar Hrunsins. Að því unni félagar Sighvatar hörðum höndum með því að leggja grunn að efnahagslífi að fyrirmynd norrænna velferðarríkja úr hinu fullkomna Hruni hægrimennskunnar. Allt voru þetta og margt fleira hin daglegu verk vinstristjórnarinnar jafnhliða því að berjast við stjórnarandstöðu sem orgaði af bræði yfir því að verið var að rótast í „stjórnkerfinu þeirra“. Þau eru glöð í dag og eru aftur er tekin til við að spora út ganga stjórnarráðsins.
Í rauninni má segja að öll önnur mál hafi verið smámál saman borin við stóru málin sem Sighvatur Björgvinsson kemur ekki auga á.
Það kann vel að vera að úr sér gengnir stjórnmálamenn telji sig til þess fallna að dæma félaga sína með þeim hætti sem Sighvatur og fleiri af sama kaliberi hafa gert.
Þeir ofmeta stórlega stöðu sína og áhrif.