Sigurður Ingi Jóhannsson, annar tveggja ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunar, sagði í ræðu sinni við hátiðarhöld sjómannadagsins í Reykjavík í dag að „ríkisstjórnin ætla að vinna áfram með tillögur sáttanefndar um nýtingu aflaheimilda en nefndin starfaði á síðasta kjörtímabili.“ Þetta hljómar undarlega í ljósi þess að þingmaður framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson barðist gegn þessum tillögum á síðasta kjörtímabili. Þetta mun þó vera einn og sami maðurinn.
Látum það liggja á milli hluta.
Sjómannadagurinn á sér sögu. Hann var fyrst haldin í júní 1938 á Ísafirði og í Reykjavík. Markmiðið með deginum í upphafi var m.a. að vekja athygli á störfum og starfsskilyrðum sjómanna og ekki síst því mikla mannfalli sem var hjá sjómannastéttinni á fyrri hluta síðustu aldar.
Ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunar sá ekki ástæðu til að beina orðum sínum sérstaklega til sjómanna í hátíðarræðu sinni svo neinu næmi. Var þetta þó hátíðisdagur þeirra, sjálfur sjómannadagurinn. Hann vék t.d. ekki einu orði að því að sjómönnum er hótað uppsögnum, jafnvel heilum áhöfnunum, í heilögu stríði einstakra útgerða gegn stjórnvöldum.
En nýi ráðherrann notaði sjómannadaginn til að heita útgerðinni í landinu því að afnema veiðigjaldið og koma til móts við þarfir hennar að öðru leiti. Það er í sjálfu sér sjónarmið sem á rétt á sér eins og hvað annað og hefur án efa fallið í kramið hjá einhverjum.
Sigurður Ingi Jóhannsson hélt hinsvegar sína fyrstu hátíðarræðu á röngum stað og af röngu tilefni.