Betri staða en áætluð var

Ein fyrsta fréttatilkynning fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá því nýr ráðherra tók við embætti er um greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði ársins. Þar segir m.a.: „Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins 2013 liggur nú fyrir. Staða handbærs fjár frá rekstri batnaði miðað við sama tímabil 2012 … - Tekjur hækkuðu um 7,1 ma.kr. milli ára en gjöld jukust um 5,6 ma.kr. Þessi útkoma er betri en áætlað var.“
Enn fremur segir í tilkynningunni: „Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 174,6 ma.kr. á fyrstu fjórum mánuðum ársins sem er 4,2% aukning á milli ára. Niðurstaða tímabilsins er 0,6 ma.kr. eða 0,3% undir tekjuáætlun fjárlaga. Í grófum dráttum teljast tekjur ársins því á áætlun og ljóst er að það neikvæða frávik sem kom fram í greiðsluafkomu fyrsta ársfjórðungs hefur að mestu gengið til baka.“
Sem sagt: Staðan er betri en ráð var fyrir gert.
Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að nýr forsætisráðherra hélt því fram fyrir nokkrum dögum að staðan væri mun verri en hann hefði gert ráð fyrir.
Hvort ætli fjármála- og efnahagsráðherra muni standa með sínu eigin ráðuneyti í þessu máli eða yfirmanni sínum í forsætisráðuneytinu?