Framsókn fær óvæntan liðsauka

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í viðtali við RÚV fyrir nokkrum dögum að hann myndi endurskoða áform um byggingu nýs Landspítala. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er byggingin nánast slegin af með þeim orðum að leggja eigi áherslu á áframhaldandi viðhald á úr sér gengnu húsnæði spítalans „þar til varanleg lausn finnst“ (bls. 10). Málið er hinsvegar að varanleg lausn er fundin. Hún fólst í ákvörðun síðasta þings um byggingu nýs þjóðarspítala í stað þess að viðhalda gömlu húsnæði og úreltum tækjum. Það sem meira er, nýi heilbrigðisráðherrann stóð að þessari ákvörðun bæði sem nefndarmaður í fjárlaganefnd og síðan í atkvæðagreiðslu í þinginu þegar frumvarp um byggingu nýs þjóðarspítala var ákveðin. Framsóknarmenn studdu málið hinsvegar ekki, sátu ýmist hjá eða greiddu atkvæði gegn málinu.
Það er því engu líkara en sjónarmið þeirra hafi orðið ofan á og Kristjáni Þór verið falið að fylgja stefnu framsóknarflokksins í þessu stóra máli, gegn eigin sannfæringu.