Vælubíllinn

Eitt það skemmtilegasta við þingmannsstarfið að mínu mati eru samskipti við fólk með ólíkar þarfir og hagsmuni víðs vegar að af landinu. Líklega kynnast fáir lífinu og fólkinu í landinu betur en þingmenn, þ.e. þeir þingmenn sem á annað borð sinna vinnunni með þeim hætti.
Margir hafa átt um sárt að binda á Íslandi vegna efnahagsóstjórnarinnar á „góðæristímanum“ sem lauk með stærsta falli sem orðið hefur í vestrænu ríki haustið 2008. Í starfi mínu síðustu fjögur árin hitti ég fjölmarga sem vildu ræða við mig um erfiða stöðu sína og leita leiða til lausna og koma jafnvel með tillögur þar um. Sumir komu á skrifstofu mína til að ræða málin, aðra hitti ég annars staðar eða ræddi við í síma enda höfðu sumir slíka óbeit á Alþingi og öllu sem því tengist að þeir vildu ekki koma í húsnæði þingsins. Fáir hafa hins vegar kveinkað sér meira en ríka fólkið, þeir sem mest hafa á milli handanna og héldu mestu eftir á meðan aðrir töpuðu öllu sínu. Þetta fólk hafði stundum í hótunum við stjórnvöld ef það fengi ekki allt sitt að fullu til baka. Þessi hópur samfélagsins telur á sér brotið ef hann þarf að leggja meira í púkkið en hinir sem lítið sem ekkert eiga. Hann vælir undan því að þurfa að axla ábyrgð, gefur lítið fyrir samfélagslega ábyrgð, stendur þétt saman og hugsar um eigin hagsmuni umfram annað. Enda hefur þessi geiri samfélagsins alltaf fengið það sem hann vill og er óvanur öðru.
Í kvöld verður mynduð ríkisstjórn fyrir þennan þjóðfélagshóp.
Vælubíllinn er kominn til að pikka þau upp.