Er eitthvað að marka þetta?

Í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans má finna ýmislegt undarlegt sem stangast á við umræðuna í samfélaginu, svo ekki sé nú meira sagt. Á bls. 42 er því m.a. haldið fram að fjárlög síðasta árs hafi gengið eftir eins og að var stefnt og rekstur ríkissjóðs sé sömuleiðis á áætlun eins og ráð var fyrir gert.

„Markmiðið um afgang á frumjöfnuði árið 2012 náðist ...

Nú er lokið fyrsta heila árinu frá því að efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk. Til að styðja við efnahagsbatann var í fjárlögum fyrir síðasta ár slakað lítillega á því aðhaldi sem boðað hafði verið í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 þegar efnahagsáætlunin stóð enn yfir. Markmiðinu um afgang á heildarjöfnuði var frestað um eitt ár til ársins 2014 og var það aftur staðfest í fjárlögum fyrir þetta ár. Markmiðið um jákvæðan afgang á frumjöfnuði árið 2012 var þó enn í gildi og tóku fjárlög ársins 2012 mið af því. Nú liggja fyrir bráðabirgðatölur um afkomu ríkissjóðs á greiðslugrunni fyrir árið 2012. Þær tölur gefa til kynna að fjárlög ársins 2012 hafi að mestu gengið eftir en þar var gert ráð fyrir 2% afgangi á frumjöfnuði. Undirliggjandi rekstur er því á áætlun og markmiðinu um afgang á frumjöfnuði náð. Tekjuáætlun fjárlaga gekk eftir og útgjöld voru 2% innan heildarfjárheimilda.“
 

Myndin hér að ofan, sem fengin er úr kynningu Seðlabankans, sýnir samanburð á frumjöfnuði milli landa (frumjöfnuður er jöfnuður tekna og gjalda án vaxtatekna og vaxtagjalda) og eins og sjá má er Ísland þar fremst í flokki. Til að bæta svo gráu ofan á svart fyrir suma, þá spáir Seðlabankinn svo meiri hagvexti hér á landi en meðal annarra þróaðra ríkja (bls. 10)
En það er ekki nóg með að Seðlabankinn sé í ruglinu heldur fullyrða einhverjir útlendingar að efnahagsstefna vinstristjórnarinnar kunni að hafa bjargað mannslífum.
Sjálfsagt einhverjir kommúnistar – eins og í Seðlabankanum.