Það er hárrétt sem fram kom hjá Ingimari Sveinssyni, íbúa á Eir, í Kastljósinu í kvöld: Það er óásættanlegt með öllu hvernig komið hefur verið fram við þau sem keyptu íbúðarétt hjá Eir.
Þannig á þetta ekki að vera. Alls ekki. Það er nauðsynlegt að ábyrgð fyrri stjórnenda verði könnuð til hlítar. Það er sömuleiðis nauðsynlegt að ábyrgð stjórnmálamanna og tengsl þeirra við stjórnendur og eigendur Eirar og annarra sambærilegra stofnana verði rannsökuð til enda. Það er óásættanlegt að það gerist fyrir augum okkar að eldri borgarar þessa lands séu blekktir og sviknir með þeim hætti sem virðist hafa verið gert af fyrrverandi stjórnendum Eirar. Þeirra er ábyrgðin en ekki hinna sem í góðri trú lögðu allan ævisparnað sinn í hendurnar á þeim.
Eirarmálið er eitt það ljótasta sem upp hefur komið á síðustu árum. Það verður að upplýsa að fullu.
Um þetta hef ég áður fjallað opinberlega og komið að því ásamt öðrum að tryggja íbúum Eirar þá þjónustu sem þeir eiga rétt á að fá.
Fjárhagslegu og siðferðilegu ábyrgðina er hins vegar ekki hægt að taka af þeim sem hana bera.