Aftur til fortíðar

Gullgrafaraæðið á hlutabréfamarkaðinum er vísbending um að ákveðinn þjóðfélagshópur þrái og trúi á afturhvarf til fortíðar. Jafnvel þó svo að strákarnir séu ekki enn búnir að ganga frá stjórnarsáttmála eða skipa til sætis í nýrri ríkisstjórn hægriflokkanna er ljóst hvaða væntingar þessi hópur gerir til þeirra og ekki að tilefnislausu. Trúin á endurtekningu góðærisáranna sem muni gera allt gott aftur er skynseminni yfirsterkari.

Jafnvel þeir sem nú kalla hvað hæst eftir lækkun skulda sinna (sjá færslu hér að neðan) virðast tilbúnir til enn frekari skuldsetningar og þá í milljarðavís. Enda er milljarður til eða frá ekki aðalatriðið heldur hvort hægt er að græða milljarð án þess að leggja nokkuð af mörkum. Aðvörunarorð fá nú aftur lítið vægi í umræðunni og skiptir þá engu hvaðan þau koma frekar en fyrri daginn. Ef illa fer verða aðrir látnir borga brúsann.

Þessir aðrir erum við hin.
Eins og venjulega.