Sjálfstæðisflokkurinn á og sjálfstæðisflokkurinn má

Þetta viðtal við fyrrverandi ráðherra sjálfstæðisflokkinn lýsir dæmigerðu og gamaldags viðhorfi til stjórnmála.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í neinni aðstöðu til að velja sér samstarfsaðila frekar en aðrir flokkar. Vilji flokkurinn komast í ríkisstjórn þarf hann að semja við a.m.k. tvo aðra flokka um samstarf. Það er því ekkert um það að ræða að sjálfstæðisflokkurinn eigi að mynda stjórn með Vg eða öðrum rétt eins og um einfalda ákvörðun sé að ræða af hálfu formanns flokksins. Þær aðstæður eru einfaldlega ekki uppi í stjórnmálunum í dag að það sé í höndum einstakra flokka eða formanna að ákveða nokkuð í þessum efnum. Nú þurfa þeir sem vilja stjórna landinu að tala saman og ræða sig til lausna um pólitísk ágreiningsmál hvar í flokki sem þeir eru. Sem er bara fínt.

Gósentíð fyrir pólitíska fíkla!

Þær vikur sem liðnar eru frá kosningum hafa verið hreint afbragð fyrir okkur sem höfum áhuga á stjórnmálum. Svo til daglega hefur eitthvað nýtt gerst sem kallað hefur að pælingar og vangaveltur um möguleika á myndun ríkisstjórnar. Margir stjórnmálamenn sem eru vanir að fara með völd eiga erfitt með að fóta sig í þessu umhverfi. Þeim finnst þeir vera villtir í völundarhúsi og skilja ekkert í því hvers vegna þeir eru ekki leiddir úr villunni og heim í stjórnarráðið. Aðrir virðast njóta stöðunnar og flakka á milli stjórnarmyndunarviðræðna eftir því hvert vindurinn blæs þeim hverju sinni.

Litlar breytingar á fjárlagafrumvörpum

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, benti á það fyrir skömmu að líklega yrðu nú ekki miklar breytingar gerðar á fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra áður en það yrði lögfest. Þingmennirnir, Bjarkey Gunnarsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir, undirstrikuðu þetta í viðtali á Hringbraut í gær.
Þetta eru ekki ný tíðindi. Ólíkt því sem margir halda taka fjárlagafrumvörp ótrúlega litlum breytingum í meðförum þingsins, sjaldan meira en 1 – 1,5% af áætluðum tekjum og gjöldum. Mest er um smávægilegar breytingar að ræða og tilfærslur á milli einstakra liða en stóra myndin breytist aldrei svo nokkru nemi. Það verður að teljast ólíklegt að breyting verði á að þessu sinni eins þingmennirnir þrír benda réttilega á.

Minnihlutastjórnin lifir góður lífi!

Það er talsverður misskilningur í gangi um eðli og umboð svo kallaðra starfsstjórna. Það gilda engin sérstök lög um starfsstjórnir umfram aðrar ríkisstjórnir. Starfsstjórnir starfa eins og allar aðrar ríkisstjórnir á grundvelli stjórnarskrár landsins og í umboði forseta. Starfsstjórnir geta gert allt það sem aðrar ríkisstjórnir geta og mega og ráðherrar þeirra sömuleiðis. Starfsstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar er í raun og veru ekkert annað en minnihluta stjórn sem þarf að semja um framgang sinna mála á þinginu. Reyndar má halda því fram að staða hennar hafi styrkst nokkuð við það að þingið er tekið til starfa. Þess ríkisstjórn getur allt eins setið til vors með óbreytt ráðherralið nema önnur sterkari leysi hana af hólmi.

Heillaskref í menntamálum

Í mars 2009 skrifaði Katrín Jakobsdóttir, þáverandi menntamálráðherra, undir samkomulag um byggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Áður en til þess kom höfðu menntamálaráðherrar sjálfstæðisflokksins í röðum gengið á bak orða sinna um stofnun skólans. Síðasti menntamálaráðherra sjálfstæðisflokksins gerði svo tilraun til að leggja hann niður sem slíkan en var stöðvaður af heimamönnum. Það var því ekki þrautalaust að koma skólanum á fæturna og það þurfti að hafa fyrir hverju skrefi, jafnvel að fá heiti skólans staðfest.

Alveg þess virði

Fjárlagafrumvarp næsta árs verður lagt fram á Alþingi í dag. Frumvarpið er skilgetið pólitískt afkvæmi sjálfstæðisflokks og framsóknar og endurspeglar áherslur þeirra flokka varðandi rekstur ríkisins í velferðar -, heilbrigðis- og menntamálum, samgöngumálum og innviðauppbyggingu. Fjárlagafrumvarpinu fylgja síðan frumvörp um tekjuöflun ríkisins til næstu ára, þ.m.t. um afnám þrepaskipts tekjuskattskerfis.
Sjálfstæðisflokkur og framsókn hafa hins vegar ekki nægilega marga þingmenn til að tryggja þessum hjartans málum sínum öruggan framgang í þinginu. En það ætti ekki að þurfa að þvælast mikið fyrir þeim enda eru margir úr hópi nýrra þingmanna annarra flokka þeim sammála um þessi stóru mál ef marka má stefnuskrá þeirra.

Jöfnuður, velferð, sjálfbærni.

„Margir stjórnmálamenn vilja hvorki skilgreina sig til hægri né vinstri. Þá er hættan sú að þeir skili auðu þegar kemur að stóru úrlausnarefnunum framundan þar sem baráttan um auðlindir mun harðna og skipting gæðanna verður æ stærra viðfangsefni.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Um þetta verður næsta ríkisstjórn mynduð.

Fjárlagafrumvarp næsta árs verður lagt fram á Alþingi á morgun. Stjórnendur Landspítalans hafa verið upplýstir um hvað þeirra bíður í frumvarpinu og hafa þegar ákveðið að leita til heilbrigðisráðherra eftir tillögum um niðurskurð í rekstri spítalans. Framhaldsskólarnir eru enn sveltir líkt og verið hefur, rétt eins og háskólarnir og skólakerfið allt.

Menntun þingmanna

Það getur verið snúið að átta sig á menntun þingmanna. Opinberar upplýsingar um menntun nokkurra þeirra eru af skornum skammti og síðan eru margir þeirra með fjölbreytt nám að baki sem gerir erfiðara en ella að skipa þeim á einn sérstakan stað.
En …
Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir og má m.a. finna á heimasíðu Alþingis og víðar er þetta samt nokkurn veginn svona:
Flestir þingmenn eru með lögfræðipróf eða 14 alls. Næst á eftir koma kennaramenntaðir, samtals 8 og þar á eftir 6  þingmenn með viðskiptafræðimenntun.
Þetta er talsverð breyting frá því sem var á fyrra kjörtímabili þegar kennarar voru um fimmtungur þingmanna, lögfræðingar þar á eftir og síðan viðskiptamenntaðir þingmenn.
Ítreka fyrirvara á nákvæmni upplýsinga enda er þetta nú meira til gamans gert en hitt.

 

Ríkisstjórn um velferðarmál og jöfnuð

Það er hægt að lesa margt úr niðurstöðum kosninganna ef lagst er yfir það.
Dæmi:
Nokkrir flokkar lögðu í kosningabaráttunni mesta áherslu á umfangsmiklar og hraðar kerfisbreytingar. Viðreisn, Björt framtíð og Píratar byggðu sem dæmi kosningabaráttu sína á kerfisbreytingum í sjávarútvegi, landbúnaði, efnahagsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn og framsókn stóðu hins vegar og skiljanlega á móti öllum kerfisbreytingum.
Í kosningabaráttunni lögðu Vinstri græn mesta áherslu á uppbyggingu í heilbrigðis- og velferðarkerfinu og aukinn jöfnuð í samfélaginu. Samfylkingin var á svipuðum nótum í bland við kerfisbreytingar í átt við það sem hinir flokkarnir stóðu fyrir.
Með þetta í huga má segja að kerfisvarnarflokkarnir tveir hafi fengið 29 þingmenn, kerfisbreytingarflokkarnir þrír 21 þingmann og velferðarflokkarnir tveir 13 þingmenn.
Þetta er auðvitað mikil einföldun eins og allir sjá.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS