Kvótasetning í ferðaþjónustunni?

Í ræðu sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hélt á ferðaþjónustudeginum í Hörpu í gær ræddi hún m.a. um stýringu á flæði ferðamanna og sagði þá m.a. þetta: „Þjónustusérleyfi að erlendri fyrirmynd eru til skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í þeirri leið felst að ferðaþjónustufyrirtæki sem stunda útgerð inn á náttúruperlur í opinberri eigu, til dæmis þjóðgarða, þurfa til þess sérstakt leyfi, í raun nýtingarleyfi á hina takmörkuðu auðlind, og þessi leyfi eru boðin út.“

Ekki allt sem sýnist á kærleiksheimilinu

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði í síðasta mánuði að forveri hans og frændi í embætti hefði ekki verið sá baráttumaður gegn skattsvikum sem þjóðin hefði þurft á að halda. Í dag gekk Benedikt svo skrefinu lengra og sagði frænda sinn og forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra hafa klúðrað tækifærinu til að afnema höftin að fullu í fyrra og sagði það umtalað í fjármálaráðuneyti þeirra frænda.

Traust hreyfing - traust forysta

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur í síðustu könnunum mælst ýmist stærsti  eða næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi frá kosningum líkt og Píratar, Björt framtíð og Viðreisn. Samfylkingin og Framsókn virðast vera að bæta lítillega við sig.
Vinstri græn bættu verulega við sig fylgi sl. vor í kjölfar þess að hafa tekið mjög ákveðið á spillingarmálum tengdum Panamaskjölunum. Hreyfingin fékk 16% fylgi í síðustu kosningum og bætti nokkuð jafnt við sig yfir landið. Vinstri græn eru nú stærst í Reykjavíkurkjördæmi norður, kjördæmi Katrínar Jakobsdóttur, formanns hreyfingarinnar.

Ekki mjög flókið

Þetta er mjög gott mál. Hér er einfaldlega verið að leggja til að nýta tekjustofna til vegamála betur en gert er í þeim tilgangi að fjármagna nauðsynlegar samgöngu framkvæmdir. Það er lítið mál að bregðast við aðstæðum sem upp eru komnar og varðar landsmenn alla. Það þarf að afla tekna til útgjalda.
Það er nú ekki flóknara en það.

Myndin fengin af heimasíðu RÚV

Gat nú verið ...!

Fjármálaráðherra segir að fullkomið afnám hafta geti orðið á næstu vikum eða mánuðum. Frændi hans og forveri í embætti lýsti því sama yfir nokkuð oft á síðasta kjörtímabili.
Í ljósi sögunnar finnst mér að ráðherrar eigi að fara sparlega með slíkar yfirlýsingar.

Karlar í yngri barna kennslu

Þetta finnst mér vera gott verkefni á margan hátt. Í fyrsta lagi þá er það jákvætt að þeir sem málið varðar taki saman höndum um verkefni af þessu tagi. Í öðrum lagi verða þeir sem fá styrkina verkefnastjórar yfir verkefninu sem er ætlað vekja athygli á starfi leikskólakennara og hvetja karla sérstaklega til náms í þeim fræðum. Í þriðja lagi þá vekur verkefnið athygli á náminu og mun á endanum skila niðurstöðu sem líklegt er að geti leitt til fjölgunar í stétt leikskólakennara af báðum kynjum.

Einn fyrir alla og allir fyrir einn

Þetta er algjörlega hárrétt hjá Steingrími J. Sigfússyni og mikilvægt að hafa í huga. Ráðherra hefur enga heimild til að breyta ákvörðunum Alþingis. Samgönguáætlun er háð fyrirvara um fjármögnun en að öðru leyti stendur hún óhögguð þar til þingið breytir henni eða samþykkir nýja.
Þó svo að Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, beri ábyrgð á sínum málaflokki gagnvart þinginu þá er það þannig í reynd að öll ríkisstjórnin ver ákvarðanir einstakra ráðherra, í þessu tilfelli ákvörðun Jóns að breyta í heimildarleysi forgangsröðun samgönguáætlunar Alþingis.

Lítil þjóð i vanda

Umræðan sem nú á sér stað um sterkt gengi krónunnar, afleiðingar þess og hugsanleg viðbrögð rammar vel inn þann vanda sem lítil þjóð í sínu eigin örhagkerfi með verðlausan gjaldmiðil á við að stríða. Vegna mikilla tekna í erlendri mynt sem rekja má til mikilla vinsælda Íslands sem ferðamannalands er gengi krónunnar svo sterkt að sá hluti atvinnulífsins sem aflar tekna í erlendum gjaldmiðlum riðar til falls. Þá er talið vænlegast að draga úr vinsældum landsins með því að bremsa af eina atvinnugrein svo annarri verði bjargað. Draga úr uppgangi ferðaþjónustunnar, hefta hana og gera henni erfitt fyrir svo bjarga megi sjávarútveginum. Fórna einni grein fyrir aðra.
Kannski kemur einhver með þá hugmynd að snúa þessu á hvolf, þ.e. að draga úr tekjum sjávarútvegsins til að liðka til fyrir áframhaldandi vexti ferðaþjónustunnar?

Glæsilegt skip!

Kaldbakur EA-1 nýtt skip Samherja hf. kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Akureyri í gær. Kaldbakur er glæsilegt og öflugt skip í alla stað, með vel hannaðan skrokk sem mun fara vel með áhöfn og farm.
Það er alltaf ánægjulegt þegar ný skip bætast í flotann sem var orðin allt of gamall og úr sér gengin að mörgu leyti.
Hér má sjá nokkrar myndir af skipinu sem Gísli Sigurgeirsson tók af því í gær.

Kjarni málsins

Líkt og venjulega kemst Magnús Halldórsson, ritstjóri Kjarnans, að kjarna málsins í skrifum sínum.
Það er eins og einhver tegund af þöggun ríki um málefni Arion banka og boðaða einkavæðingu Landsbanka og Íslandsbanka. Ég veit ekkihvers vegna. Það lítur út fyrir að ráðherrar ætli að sniðganga Alþingi og ráðstafa bönkunum án opinberrar umræðu innan sem utan þings. Það verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum.
Miðað við eðli og umfang málsins ættu stjórnmálamenn í rauninni ekki að vera að ræða um neitt annað en skipulag fjármálakerfisins.
En áherslan er á öðrum sviðum, eins og Magnús bendir á, og stefnumálin önnur.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS