Eftir að hafa pælt mig að mestu í gegnum þau gögn sem ríkisstjórn hægriflokkanna hefur sent frá sér í dag vegna gjaldeyrishaftanna komst ég að eftirfarandi niðurstöðu:
1. Stjórnvöld hafa fallist á skilyrði kröfuhafa fyrir afnámi haftanna. Samningar liggja fyrir.
2. Af því leiðir að það verður enginn stöðugleikaskattur lagður á.
Ég er fyrsti maður til að viðurkenna að ég er hvorki skarpasti kutinn í skúffunni né skín pera mín skært í samanburði við aðrar í seríu stjórmálamanna. Mér fannst þessi niðurstaða mín því heldur ósennileg, ekki síst í ljósi umstangsins af hálfu formanna stjórnarflokkanna. Þannig að ég beitti brögðum til að reyna að fá skorið úr um hvort ályktun mín væri rétt..
Fyrst las ég úttekt ritstjóra Kjarnans á málinu.
Síðan hringdi ég í vin.
Að lokum renndi ég yfir allt klabbið aftur. Þetta styrkti mig heldur en hitt í afstöðu minni til þess að allt Hörpu-sjóvið í dag var bara reykur sem þegar hefur verið blásinn í burtu.
Svarið við niðurstöðu 1. hér að ofan er reyndar að finna í glæru númer 57 en þar segir: „Stærstu kröfuhafar í slitabúin hafa lýst því yfir að þeir vilja ganga að stöðugleikaskilyrðum sem sett hafa verið fram.“ Sem er eðlilegt enda eru þetta þeirra eigin skilyrði eins og fram kemur í fréttaskýringu Kjarnans hér að ofan. Með öðrum orðum: Það er búið að semja við kröfuhafa.
Svarið við niðurstöðu 2 leiðir af sjálfu sér, þar sem búið er að semja verður enginn skattur lagður á. Stöðugleikaskatturinn virðist vera settur fram í þeim eina tilgangi að friðþægja formann framsóknarflokksins sem nú þarf að éta allt ofan í sig sem hann hefur áður talað um. Kylfurnar voru aldrei dregnar fram og haglabyssan aldrei hlaðin.
Framsókn lúffaði einfaldlega.
Sem betur fer.