Ríkisstjórn um velferðarmál og jöfnuð

Það er hægt að lesa margt úr niðurstöðum kosninganna ef lagst er yfir það.
Dæmi:
Nokkrir flokkar lögðu í kosningabaráttunni mesta áherslu á umfangsmiklar og hraðar kerfisbreytingar. Viðreisn, Björt framtíð og Píratar byggðu sem dæmi kosningabaráttu sína á kerfisbreytingum í sjávarútvegi, landbúnaði, efnahagsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn og framsókn stóðu hins vegar og skiljanlega á móti öllum kerfisbreytingum.
Í kosningabaráttunni lögðu Vinstri græn mesta áherslu á uppbyggingu í heilbrigðis- og velferðarkerfinu og aukinn jöfnuð í samfélaginu. Samfylkingin var á svipuðum nótum í bland við kerfisbreytingar í átt við það sem hinir flokkarnir stóðu fyrir.
Með þetta í huga má segja að kerfisvarnarflokkarnir tveir hafi fengið 29 þingmenn, kerfisbreytingarflokkarnir þrír 21 þingmann og velferðarflokkarnir tveir 13 þingmenn.
Þetta er auðvitað mikil einföldun eins og allir sjá.
Sjávarútvegsmál, ESB, ný stjórnarskrá og málefni landbúnaðarins lágu lágt í kosningabaráttunni eins og ég upplifði hana. Velferðarmálin í víðum skilningi stóðu hæst. Ef rýnt er í kosningaáherslur flokkanna lágu áherslur þeirra mest saman í velferðar- og heilbrigðismálum þó þeir hafi lagt mismikið upp úr þeim í aðdraganda kosninganna.
Hryggjarstykkið í næstu ríkisstjórn verða ekki miklar og hraðar kerfisbreytingar. Ef farið verður að vilja kjósenda verður hún mynduð um velferðarmál og jöfnuð.
Um það ættu allir að geta sameinast.

 

Comments

Svo sannarlega er þetta mikil einföldun hjá BVG eins og hann segir sjálfur. Samt fría þau orð hans ekki lesandann við þá tilhugsun að hér hljómi bergmál úr forystu VG. Pistillinn gefur í skyn að hægt sé að skilja í sundur "velferðarmál í víðum skilningi" og ákall um kerfisbreytingar. Fyrir mér hljómar það eins og þversögn komandi frá flokki sem gefur sig út fyrir að vera umbótaafl. Standa ekki öll velferðarkerfi eða falla á kröfu samfélagsins um fulla hlutdeild í auðlindum sínum, andstöðu gegn sérhagsmunum (t.d. í landbúnaði) og traustverðugu stjórn- og dómsvaldi? Eða er allt í himnalagi í þessum málum hér á landi? Hve margir kjósendur eru sáttir við landbúnaðarmálin, kvótakerfið og misjafnt atkvæðavægi svo fáein kerfismál séu nefnd?

BVG reynir að alhæfa hver vilji kjósenda sé. En varla nægir huglægt mat þingmanns til að sanna hvaða áherslumál voru efst á baugi í kosningum og hver þeirra raunveruleg kosningarmál? Slíkur málflutningur var reyndur á síðasta kjörtímabili þegar Vigdís Hauksdóttir og fleiri fullyrtu að með úrslitunum 2013 hefðu kjósendur viljað hætta við ESB umsóknina. Þeirri alhæfingu var hins vegar svarað með kröftugum og langvarandi mótmælum og fjöldi skoðanakannanna afsannaði firruna. Kjósendur kæra sig nefnilega ekki lengur um að þingmenn eða aðrir taki sér túlkunarrétt á því hvað kjósendur vilja. Vilji menn sannarlega vita raunverulegan vilja kjósenda þá ættu þeir að styðja þjóðaratkvæðisákvæði nýju stjórnarskráarinnar. Sem kallar jú á kerfisbreytingu.

Varðandi sjávarútveginn þá hafa allar skoðanakannanir frá upphafi kvótakerfisins öskrað á kerfisbreytingu. ÖSKRAÐ! Ætlar forysta VG að lýsa yfir andstöðu við kerfisbreytingu í sjávarútvegsmálunum, eins og pistill BVG gefur sterklega til kynna? Eða er pistillinn að lýsa andstöðu VG við breytingar á stjórnarskránni? Eða hvaða kerfisbreytingar er BVG  að tala um? Allar, virðist vera. Auðvitað við viljum meiri velferð og jöfnuð. Það þarf ekki að taka það fram. En við viljum líka kerfisbreytingar, kerfisbreytingar sem samræmast meirihlutaskoðun þjóðarinnar eins hún hefur birst í hverri könnuninni á fætur annarri um langt árabil. Það er ákall tímans. Ef meirihluti þingmanna á að sameinast um nokkuð þá er það einmitt kerfisbreytingar gegn sérhagsmunum hinna fáu.