Febrúar 2008 virðist hafa verið afar átakamikill mánuður í sögu þessa lands. Í þeim mánuði voru teknar margar afdrifaríkar ákvarðanir sem haft hafa gríðarleg áhrif á lífskjör okkar allra. Þó voru áhrifin ekki neikvæð fyrir alla eins og gengur og gerist. Í dómi Landsdóms yfir Geir H Haarde er ítarlega sagt frá gangi mála í þessum merka mánuði árið 2008. Vísa má í ákæruatriðin sjálf í því sambandi (bls. 1 – 2 – 25 sem dæmi). Reyndar má benda á afar athyglisverðar tilvitnanir í ræðu sakborningsins á Viðskiptaþingi í febrúar 2007 þar sem hann leggur áherslu á að „draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera“ (bls.14). En aftur í febrúar 2008. Í landsdómi er á bls. 26 vísað í tölvupóst Samtaka fjármálafyrirtækja til Geirs H Haarde þar sem lýst er áhyggjum „…forystumanna í íslenskum fjármálageira af þeirri þröngu stöðu sem nú er að skapast í efnahagsmálum þjóðarinnar og þeim víðtæku áhrifum sem of hraður samdráttur gæti haft.“ Einnig má vísa á bls. 27 í dómnum þar sem sagt er frá fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika, ríkisstjórnarfundum og skeytasendingum Geirs til Ingibjargar Sólrúnar um nauðsyn þess að hittast sem fyrst til að fara yfir stöðuna. Á bls. 30 er sagt frá því að í febrúar 2008 hafi verið haldinn fundur Seðlabankastjóra með stjórnendum Landsbankans þar sem meðal annars var vísað til þess að kjör íslensku bankanna á erlendum mörkuðum væru slík „að þeim er í raun ógerlegt að afla sér lánsfjár með eðlilegum hætti“. Áfram er haldið á næstu síðum og sagt frá tölvusamskiptum Geirs við ráðuneytisstjóra sinn þar sem þeir leggja á ráðin um að leyna stöðunni eins og mögulegt er að gera (bls. 32 – fleira áhugavert á þeirri síðu) og á bls. 34 og 35 er sagt frá tölvupóstum milli þeirra tveggja þar sem þeir leggja á ráðin um að leyna stöðunni. Á sömu síðu er sagt frá því að starfsmaður Landsbankans hafi sent Geir erindi þar sem varað er við Icesave-reikningum bankans. Allt þetta og miklu meira gerist í febrúar 2008, mest þó fyrstu daga mánaðarins. En það voru fleiri að dunda sér á þessum tíma. Þáverandi varaformaður sjálfstæðisflokksins og maki hans voru á þessum dögum að verja heimilisbókahaldið fyrirsjáanlegum skakkaföllum á þessum dögum með því að koma skuldum í skjól. Vafningsmálið sem núverandi formaður sjálfstæðisflokksins er svo rækilega flæktur í á sér stað í byrjun febrúar 2008. Það mál snerist í stuttu máli um að forða Glitni og þar með bankakerfinu öllu frá falli með því að koma í veg fyrir að erlendur banki þyrfti að leysa til sín hlutabréf í bankanum sem voru í veði fyrir láni til eigenda bankans. Of langt mál að fara í það hér. Í febrúar 2008 seldi formaður sjálfstæðisflokksins svo hlut sinn í Glitni og komst víst ágætlega frá því. Ákæra á hendur fyrrum stjórnenda Glitnis snýst um aðkomu þeirra að Vafningsmálinu eins og allir vita. Í kjölfarið á þeim æfingum öllum fór Glitnir svo í skuldabréfaútboð þar sem íslensku lífeyrissjóðirnir voru helstu fórnarlömb bankans þegar þeir féllu fyrir gylliboðum hans um 8% vexti á verðtryggð bréf, að því er virðist án mikillar umhugsunar. Þetta er m.a. eitt af því sem fram kemur í úttekt á starfsemi lífeyrissjóðanna frá því í vetur, t.d. á bls. 20, 88 og 137 svo dæmi séu tekin. Það er líka ansi skemmtileg yfirferð um tengsl eigenda Glitnis á þessum tím á bls. 25 þar sem Vafningsliðið kemur auðvitað við sögu. Margt fleira mun hafa gengið á í febrúar 2008 en hér er farið yfir. Í stuttu máli má segja að í febrúar 2008 hafi það gerst að falli íslensku bankanna var frestað um átta mánuði. Formaður sjálfstæðisflokksins átti þátt í því með aðild sinni að Vafningsmálinu. Í febrúar 2008 forðuðu forystumenn sjálfstæðisflokksins eigum sínum undan Hruninu. Í febrúar 2008 nörruðu Glitnismenn lífeyrissjóðina til að kaupa ónýt bréf í bankanum sem þeir vissu að voru tapað fé. Í febrúar 2008 gerðu stjórnvöld allt hvað þau gátu til að leyna almenning upplýsingum um alvarlega stöðu landsins. Í enn styttra máli: Í febrúar 2008 vissu þessir aðilar allir í hvað stefndi, sögðu ekki frá því en reyndu þess í stað að nýta vitneskju sína til að koma sér og sínum í öruggt skjól. Það má því með réttu halda því fram að febrúar 2008 hafi verið mánuðurinn sem allt féll án þess að við vissum af því. Með fáeinum undantekningum þó.