Skatta klám

Sjálfstæðismenn halda því stöðugt fram að íslendingar hafi verið leiddir í skattaánauð í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það hafi nú verið annað á meðan Flokkurinn var við stjórnvölin. Þá tóku skattarnir ekki í budduna hjá almenningi né íþyngdu nokkrum manni. Til þess tíma vilja sjálfstæðismenn hverfa aftur og hóta því hafa lofað því að hverfa aftur til fortíðar í þeim efnum. Þá hótun má m.a. sjá í efnahagstillögum þeirra á þinginu.
En hverjar eru nú staðreyndirnar þegar betur er að gáð?
Á tólf ára valdatíma sjálfstæðisflokksins lækkaði meðalskattbyrði íslenskra heimila. Já, rétt, hún lækkaði. En hvernig gerðist það? Það gerðist með því að lækka skattbyrði þeirra sem höfðu mestar tekjurnar og búa til útgönguleiðir framhjá skattinum fyrir þá sem gátu skammtað sér laun. Með því að leggja niður hátekjuskatt og með því að taka upp lágan fjármagnstekjuskatt (ásamt fleiru slíku) lækkaði skatthlutfall þeirra sem hæstu launin höfðu um meira en þriðjung. Þannig lækkaði bein skattbyrði þeirra sem höfðu allra hæstu launin úr 32% frá árinu 1996 í 13% árið 2007 þegar það náði sögulegu lágmarki.
Á meðan var raunskerðing á persónuafslætti sem kom þeim lægstu launuðu verst, vaxtabætur voru skertar, barnabætur voru skertar og fleira gert sem kom almennu launafólki illa. Á sama tíma hækkaði bein skattbyrði þeirra sem höfðu allra lægstu launin úr 18.2% í 21.2%.
Þannig m.a. náði sjálfstæðisflokkurinn að lækka meðalskattbyrðina á Íslandi. Með því að lækka hjá þeim hæstu og hækka á þeim lægstu. Um þetta vitna fjölgar skýrslur og úttektir á þessum málum, t.d. þessi hér.
Og þeir hóta því að færa okkur aftur til þeirra tíma ef Flokkurinn kemst aftur til valda.
Skattar á Íslandi eru enn, þrátt fyrir þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á síðustu tveim árum, lægri en í samanburðarlöndum. Og það sem meira er, skattbyrði almennings á Íslandi er enn talsvert undir því sem hún var á þeim tíma sem skattastefna sjálfstæðisflokksins var í hámarki.
Munurinn er hinsvegar sá að skattbyrðinni er nú betur dreift en áður. Hún hefur verið færð af þeim sem lægstu launin hafa yfir til þeirra sem hæstu launin bera úr bítum. Það hefur m.a. verið gert með því að taka upp þrepaskipt skattkerfi þar sem skatthlutfall hækkar í samræmið við laun, auðlegðarskatt sem þeir alrra efnuðustu greiða og hækka fjármagnstekjuskatt sem nær til þeirra sem njóta þess að lifa á fjármagnstekjum. Það er algjörlega öfugt við það sem sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir og hótar að endurtaka komist hann í færi til þess.
Síbylja sjálfstæðismanna um stór aukna skattbyrði almennings á því ekki við rök að styðjast og stents ekki skoðun.
Málflutningur þeirra í skattamálum er því eins og hvert annað skatta klám.