Spekingar spjalla

Tvö ný frumvörp um stjórn fiskveiða voru afgreidd af ríkisstjórninni til endanlegrar afgreiðslu í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með því hvað margir hafa skoðun á frumvörpunum án þess að hafa séð þau og þaðan af síður haft tækifæri til að kynna sér innihald þeirra. Hver spekingurinn af öðrum gerir sig gleiðan í fjölmiðlum og þar sem þeir tjá sig um afleiðingar þess sem vita ekki hvað er.
Það er svo sem við því að búast að einhverjir hafi þegar tekið þá afstöðu að vera alltaf á móti öllum breytingum eins og gengur. En það hlýtur að vera áhyggjuefnið fyrir fræðasamfélagið og ekki til þess fallið að auka trúverðugleika þess þegar fræðimenn lýsa skoðunum sínum á afleiðingum mála sem þeir hafa ekki kynnt sér. Það gerir framhald umræðunnar af þeirra hálfu ekki trúverðuga. Enn aðrir láta sér nægja að fabúlera um hugsanlegt samsæri á meðan aðrir reyna að gera mál tortryggileg sem þeir vita í rauninni ekki um hvað snúast.
Þannig hefur líka umræðan um sjávarútveginn verið allt of lengi, öllum til ama og leiðinda en þjóðinni fyrst og fremst til ógagns. Það er umræða af þessu tagi sem verður til þess að gera okkur svo erfitt að komast upp úr gömlu hjólförunum sem okkur er þó svo nauðsynlegt að komast úr.