Trampólín fjúka úr görðum

Sá sem skrifaði þessa frétt á Pressunni hefur örugglega ekki upplifað almennilega brælu!
Fyrir 200 árum eða svo hannaði flotaforinginn Sir Francis Beaufort kerfi til að áætla vindhraða. Kerfið, sem kallað hefur verið Beaufort-skalinn, var notað allt fram á allra síðustu ár þegar veðurfræðingar fóru að tala um metra á sekúndu.
Ef Sir Beaufort hefði verið að pæla í þessu í dag hefðu viðmiðin á skalanum hans eflaust verið önnur. Ef við göngum út frá því að fljúgandi trampólín úr görðum séu efsta stig, snarvitlaust veður, gæti viðmiðin fram að því verið eitthvað í þessa áttina:
0 vindstig: Sígarettureykur liðast lóðrétt upp til himins.
1 vindstig: Auðveldara að anda en venjulega.
2 vindstig: Grilllykt berst á milli húsa.
3 vindstig: Gárur sjást í tebolla úti á palli.
4 vindstig: Smá basl við að fletta DV á pallinum.
5 vindstig: Heyrist eitthvert hljóð í runnanum sem svignar aðeins til.
6 vindstig: Stóra tréð í næsta garði svignar yfir í okkar garð.
7 vindstig: Þvotturinn sem ég átti að taka inn við 5 vindstigin er fokinn af snúrunni.
8 vindstig: Sólhlífin á pallinum fýkur yfir í næsta garð.
9 vindstig: Greinin úr næsta garði (sjá 6 vindstigin) liggur brotin í okkar garði.
10 vindstig: Hoppukastalinn sem ég átti að vera búinn að skila, skilar sér sjálfur.
11 vindstig: Grillið horfið.
12 vindstig: Trampólín fjúka úr görðum.