Sjálfstæðisflokkurinn hrekkur úr gír

Í byrjun kjörtímabilsins var skipaður fjölmennur hópur hagsmunasamtaka og fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Sá hópur skilaði af sér ítarlegum tillögum um framtíðarskipan þeirra mála og benti á lausnir á ýmsum ágreiningsmálum sem uppi hafa verið í sjávarútvegi. Skýrsluna má finna hér.
Fulltrúi sjálfstæðisflokksins í hópnum var Einar Kristinn Guðfinnsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og þingmaður flokksins. Hópurinn fól Einari að leiða ákveðinn hluta starfsins sem snéri að því hvernig þjóðareign á auðlindum sjávar væri best komið fyrir í stjórnarskrár landsins. Einar skilaði sínu starfi vel eins og við mátti búast og stóð síðan eins og allir aðrir sem í hópnum sátu, að þeim megin niðurstöðum sem hópurinn lagði til um framtíðarskipan stjórna fiskveiða. Frumvarp til nýrra laga um stjórn fiskveiða byggja á þeim tillögum sem hópurinn lagði til og til viðbótar verður tekið tillit til ýmsa tillagna sem flokkar stjórnmálaflokkarnir hafa lagt til varðandi þessi mál á þingi að undanförnu.
Framsóknarflokkurinn samþykkti á landsfundi sínum á dögunum tillögur í sjávarútvegsmálum sem falla vel að niðurstöðum endurskoðunarhópsins og því frumvarpi sem er í undirbúningi.
Þá bregður svo við að varaformaður sjálfstæðisflokksins lýsir því yfir að flokkurinn hafi skipt um skoðun og vilji nú ekki sjá neinar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.
Þetta þykja mér slæm tíðindi. Svo það sé á hreinu þá dettur mér ekki eitt augnablik í hug að ekki hafi fylgt hugur máli hjá fulltrúa flokksins í endurskoðunarhópnum, Einari Kristni Guðfinnsyni hvað þá að hann hafi ekki unnið að heilindum ásamt okkur hinum að þeim niðurstöðu sem við komumst að.
En eins og svo oft, þá ætlar sjálfstæðisflokkurinn að hrökkva úr gír þegar á reynir og skiptir þá engu hvort ákveðnir flokksmenn eða fulltrúar flokksins séu gerðir að ómerkingum í leiðinni. Það höfum við séð áður og eigum örugglega eftir að sjá aftur.
En sjálfstæðisflokkurinn er úr leik. Hann hefur sagt sig frá þeirri sátt sem í sjónmáli var um sjávarútveginn og kosið ófriðinn þegar friður var loks í sjónmáli.
Það virðist því vera breið samstaða á Alþingi fyrir því að breyta um stjórnkerfi fiskveiða meðal allra flokka, nema sjálfstæðisflokksins.