Ríkisstjórnin hefur stöðvað frekari neikvæð áhrif hrunsins á skuldir heimila


Þeir virðast vera til í íslensku samfélagi sem reyna að kenna núverandi ríkisstjórn um allt sem aflaga hefur farið í heimssögunni. Reyndar er ekki er gengið svo langt að kenna henni um krossfestingu frelsarans forðum daga en allt að því. Að undanförnu hafa verið miklar umræður og fréttaflutningur þess efnis að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafi leitt til hækkana á verðtryggðum lánum með skelfilegum afleiðingum. Mætti stundum halda að þar sé að rótanna að höfuðstólahækkun á skuldum heimila sé að leita í skattastefnu núverandi stjórnvalda en ekki til hrunsins og afleiðinga þess.
En það er sama hvað viðkomandi álitsgjafar og stjórnmálamenn þola illa skatta sem hafa hækkað vegna fordæmalausra aðstæðna í ríkisfjármálum, þá er til einskis að hengja bakara fyrir smið í þessu sambandi.
Núverandi ríkisstjórn hefur lyft grettistaki í íslensku efnahagslífi og afstýrt enn frekari neikvæðum áhrifum hrunsins en flestir bjuggust við að yrði. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var verðbólga 18% og stýrivextir 18%. Í dag eru stýrivextir 4,5% og verðbólga rétt um 2%. Það eru þessar stærðir sem skipta öllu máli þegar rætt er um höfuðstólshækkun.
Hægt er að skýra þetta með einföldum hætti og lítum þá til allra skulda heimila, ekki bara verðtryggðra skulda. Skuldir heimila landsins í verðtryggðum lánum við innlánsstofnanir eru 2.000 milljarða króna, samkvæmt skýrslu ASÍ þar um. Miðað við að vextir hafa lækkað um 13,5% frá því að ríkisstjórnin tók við má áætla að fjármagnskostnaður heimila hafa lækkað um gríðarlegar upphæðir og hærri en áður hafa sést í bókhaldi heimilanna. Miðað við að við hverja prósentustigslækkun á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands lækki vextir bankanna um hálft prósentustig. Samkvæmt þessu einföldu forsendum hefur fjármagnskostnaður heimilanna á einu ári lækkað um 135 milljarða króna frá því að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við þrotabúi efnahagsstefnu sjálfstæðisflokksins.
Ef litið er til verðbólguáhrifa á verðtryggð lán heimilanna, sem eru um 1.220 milljarða króna, þá liggur fyrir að verðbólga undir lok stjórnar sjálfstæðismanna mældist 18% á ársgrunni. Verðbólga  í dag er rétt um 2% eins og áður segir. Miðað við skuldstöðu heimilanna og verðbólgu á þeim dögum sem sjálfstæðisflokkurinn var svældur út úr stjórnarráðinu, hefur dregið úr árlegri verðbótahækkun höfuðstóls skulda heimilanna um 195 milljarð króna.
Það eru þessi áhrif sem skipta mestu máli þegar mat er lagt á fjármagnskostnað og höfuðstólshækkana enda er það hrunið sem orsakaði hækkun á hvoru tveggja (þýðir bæði).
Hér er ekki um  neinar smá upphæðir að ræða sem hafa skipt landsmenn gríðarlegu máli, hvort sem um er að ræða heimili eða fyrirtæki. Þetta er en þýðingarmesta breyting sem orðið hefur á því efnahagsumhverfi sem við búum nú við og er reyndar forsenda þess að við getum horft til framtíðar í þeim efnum.
Núverandi ríkisstjórn hefur því komið böndum á þessi þætti og þannig skapað heimilum skjól frá óðaverðbólgu og okurvöxtum fyrri tíma. En sumir kjósa að sjá málin í öðru ljósi og kenna ríkisstjórninni um og hafa þeir þar hæst sem engum árangri náðu, hvorki við að halda niðri vöxtum né koma böndum á verðbólguna  og skildu samfélagið eftir í efnahagslegum sárum. Fyrir þá er ágætt að kynna sér snjalla örkynningu fjármálaráðuneytisins um vexti og verðbólgu og ætti að nægja til að setja þessi hluti í rétt samhengi.