Handstýrt álver í Helguvík?

Hér á landi er rík krafa um að stjórnvöld ýti af stað fjárfestingu með því að handstýra í gang álveri í Helguvík að útvega álverinu nægilega orku til að moða úr.
En hvað er raunverulega verið að biðja um? Til þessa hafa Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka ekki treyst sér til að útvega orku á þeim verðum sem um var samið árið 2007, þ.e. að ekki sé hægt að standa að baki slíku orkuverði eða verja það. Og hvað á þá að gera? Er verið að biðja stjórnmálamenn um að kúga Landsvirkjun til að undirgangast orkuverð sem nú þegar er úr takti við raunveruleikann og ljóst er að fjölmargir aðilar eru tilbúnir að koma til landsins og greiða miklu hærra orkuverð?
Nú, nýlega voru undirritaðir orkusölusamningur og fjárfestingasamningur við íslenska kísilfélagið. Báðir mörkuðu þessir samningar tímamót. Varðandi orkusölusamningin þá er það að segja að þar var samið um orkuverð sem er mun hærra en álverssamningar fyrri tíma og tímabil samningsins styttra. Þannig eigum við auðvitað sem þjóð að nálgast þá fjölmörgu áhugasömu fjárfesta sem vilja koma hingað til lands og fjárfesta, með reisn í stað undirlægjuháttar.  Það er algjörlega óverjandi að skáka í því skjóli að vegna tímabundinna erfiðleika í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar eigi að beygja sig undir það að selja orku úr okkar verðmætu auðlindum á verði sem ekki er ásættanlegt. Það er engin ástæða til þess, heldur þvert á móti. Við fjárfestum í framtíðinni með því að tryggja arðbæra orkusölusamninga en ekki með því að undirgangast lúsarlegt verð fyrir nýtingu á okkar verðmætustu auðlindum. Það þarf sömuleiðis að huga að fleiri þáttum í þessu sambandi, m.a. hvað við fáum mörg störf út úr hverju megawatti sem notað er. Því fleiri störf sem fást úr hverju megawatti því meira skilar okkar takmarkaða auðlind í atvinnumálum. Því fleiri fyrirtæki sem fást til að kaupa orku á ásættanlegu verði, því meiri atvinnusköpun og því meiri arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar.
Er það ekki aðalmálið?