Óboðnir gestir í Gaukshreiðrinu

Sem þingmaður er ég er með skrifstofu á sjöttu hæð Moggahallarinnar gömlu við Aðalstræti 6 í Reykjavík, sem farið er að kalla Gaukshreiðrið einhverra hluta vegna. Það þótti kindarlegt í meira lagi svona í ljósi sögunnar, að það yrðu örlög Vinstri grænna að þurfa að koma sér fyrir í gamla vígi Moggans sem ekki hefur beinlínis verið vinsamlegur íslenskum vinstrimönnum í gegnum tíðina þó það sé hjómið eitt í samanburði við það sem er í dag. Til að bæta gráu ofan á svart hefur ESB nú opnað skrifstofu tveim hæðum neðan við Vinstri græn en leiðir þessara tveggja turna í evrópskum stjórnmálum hafa ekki legið mjög þétt saman eins og kunnugt er.

En hvað um það. Ég hef í tvígang orðið fyrir árás á skrifstofu minni eða réttara sagt fengið óumbeðna heimsókn tveggja aðila sem hafa átt greiða leið í húsið og skrifstofur þess. Í hvorugt skiptið var mér brugðið og engin mein hlaut ég af þessum heimsóknum, líkamleg né andleg. Í bæði skiptin var um að ræða manneskjur sem alla jöfnu má sjá á götum borgarinnar, oft drukknar og enn oftar að biðja vegfarendur um aura sér til lífsviðurværis. Og það var einmitt tilgangurinn í með heimsóknum þessara tveggja sem stóðu á skrifstofu minni á sínum tíma. Að biðja um pening. Í bæði skiptin bauð ég gestunum að setjast og sömuleiðis upp á kaffisopa en hvorugt var þegið enda í nógu að snúast, að mörgu að hyggja og margar skrifstofur enn ósóttar heim.

Kannski hefði ég átt að láta einhvern vita, t.d. þingvörð eða skrifstofu þingsins, en gerði það ekki. Leit ekki þannig á að málið væri svo alvarlegt að þyrfti að grípa til ráðstafana þess vegna. Kannski var það rangt mat hjá mér. Á skrifstofu minni er svo sem ekki margt sem vekja á athygli utan að komandi án þess að ég geri mér beinlínis grein fyrri því. Þó er tölva mín iðulega í sæti sínu, full af allskyns gögnum sem einhverjum kann að þykja fengur í að komast yfir og einhver skjöl eru þarna sjálfsagt líka sem ekki þætti gott að kæmist í annarra flokka hendur. Líklega ætti maður að huga betur að öryggismálum sínum en hingað til  – ef maður nennir.

En eitt lærði ég þó af þessu og það er að hafa alltaf við hendina a.m.k. 500 krónur ef óvæntan gest ber að garði. Það getur skipt öllu máli þann daginn – fyrir okkur báða.

Annars og þar fyrir utan er þetta njósnamál á nefndarsviði Alþingis hið leiðinlegasta mál.