Hvað vilja sjálfstæðismenn?

Jón Gunnarsson þingmaður sjálfstæðisflokksins vill að kosið verði til þings næsta vor. Það stangast á við fyrri yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar formanns flokksins sem vill að kosið verði strax. En Jón er klókari en Bjarni og því vill hann ekki að kosið verði fyrr en næsta vor. Jón gerir sér grein fyrir því sem Bjarni gerir ekki að ef svo slysalega vildi til að sjálfstæðisflokkurinn kæmist aftur til valda í haust, yrði það hlutskipti flokksins að leiða þjóðina í gegnum erfiðasta tímabil afleiðinga efnahagshrunsins. Flokkurinn fengi þá að glíma við afleiðingar eigin verka frá fyrri árum og gera meira en gott þykir í þeim efnum og fátt af því til vinsælda fallið. Jón vill því að aðrir flokkar klári skítverkin áður en kosið verður svo íhaldið fái enn og aftur hreint borð til að káma út. Ólíkt Bjarna hefur Jón fattað að það er ekkert gaman að standa frammi fyrir eigin pólitísku spegilmynd og þurfa að sætta sig við það sem hún hefur að sýna. Það er líkt því og vera réttur spegill eftir mislukkaða lýtaaðgerð. Þess vegna vill Jón ekki koma nálægt þeim verkefnum sem stjórnvöld standa nú frammi fyrir gagnvart íslenskum heimilum og fyrirtækjum, heldur forðast hann þau eins og heitan eldinn. Í pólitískum óvitaskap sínum krefst Bjarni formaður hinsvegar kosninga strax.
Honum væri nær að ráðfæra sig oftar við Jón til að forðast svona klúður.