Hvers vegna Ingibjörg og hvers vegna Geir???

Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær kom á óvart, vakti athygli og olli talsverðu uppnámi um tíma. Jóhanna eyddi talsverðu púðri í stöðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrrverandi utanríkisráðherra og mátti á henni skilja að ekki væri rétt að ákæra ráðherrann fyrrverandi enda yrði hún að öllum líkindum sýknuð af ákæruatriðum, að mati forsætisráðherra. Fleiri hafa tekið undir þessi sjónarmið Jóhönnu og rétt í þessu var formaður sjálfstæðisflokksins að tala í sömu tóntegund í ræðu sinni á Alþingi.

Í þingsályktunartillögunum sem ræddar eru á Alþingi er gerð tillaga um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi utanríkisráðherra skuli ákærð fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama árs, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi og brota á lögum um ráðherraábyrgð og hegningarlögum. Þingmannanefndin fjallar síðan um þau mál sem snúa að Ingibjörgu Sólrúnu og sjö af níu nefndarmönnum í þingmannanefndinni komast síðan að eftirfarandi niðurstöðu: „Telja verður að utanríkisráðherra, sem hefur skrifað undir formlega yfirlýsingu af því tagi sem hér um ræðir, beri skylda til að fylgja því eftir að unnið sé að því sem þar er tiltekið. Það er því niðurstaða flutningsmanna að ákæra beri fyrrverandi utanríkisráðherra, rétt eins og hina ráðherrana sem hér er fjallað um, fyrir að hafa af ásetningi eða a.m.k. af stórkostlegu hirðuleysi látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því að ríkisvaldið brygðist við alvarlegum upplýsingum um stöðu bankanna, og einkum að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, a.m.k. með tillögum um það til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.“

Í þessu ljósi má benda á úthlaup þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Geirs Hilmar Haarde þar sem þau reyndu að blekkja umheiminn með röngum upplýsingum um stöðu efnahagsmála á Íslandi, rétt eins og þau reyndu að blekkja íslensku þjóðina. Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins er að finna asni hreint athyglisverða ræðu sem þáverandi utanríkisráðherra hélt um íslenskt efnahagslíf í Kaupmannahöfn 11. mars 2008 í félagsskap þekktra íslenskra „fjármálasnillinga“ eins og sjá má á mynd sem fylgir með. Vek sérstaka athygli á kafla IV í ræðunni sem heitir „Islands økonomi: Solid og fleksibel“. Á þessum tíma vissi ráðherrann betur en stundaði frekar blekkingar en að upplýsa landa sína og aðrar þjóðir um raunverulega stöðu landsins. Geir Hilmar Haarde var á þessum tíma í samskonar leiðangri í vesturheimi og flutti þá ræðu í New York á árlegri ráðstefnu Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins. Í ræðu sinni fjallaði hann um stöðu íslenkra efnahagsmála og þær miklu breytingar sem orðið hefðu á allri umgjörð efnahagsmála síðustu 15 ár, eins og það heitir á heimasíðu forsætisráðuneytisins.

Í ljósi umræðunnar sem nú á sér stað á Alþingi og samfélaginu öllu og í ljósi þess sem nú er vitað um það sem formenn þáverandi stjórnaflokka vissu á þeim tíma, er athyglisvert að lesa ræðu forsætisráðherrans fyrrverandi. Ekki síður er glærusýning ráðherrans athyglisverð og þá sér í lagi síðasta glæran þar sem helstu atriði íslensks efnahagslífs eru dregin saman eins og ráðherrann kaus að túlka það.

Ef einhver vafi hefur er uppi um útrásardrauma og efnahagslegar fyrirætlanir ríkisstjórnar Samfylkingar og sjálfstæðisflokks sem þau Geir og Ingibjörg innsigluðu með kossi á Þingvöllum vorið 2007 má benda á umfjöllun um það mál í skýrslu Rannsóknarnefnar Alþingis. Um það segir eftirfarandi í á bls. 85 í fyrsta bindi: „Ríkisstjórnin sem tók við 2007 lagði mikla áherslu á útrás. Í stefnuyfirlýsingu hennar er meðal annars talað um að stuðla að útrás orkufyrirtækja. Einnig er, og þetta er vorið 2007, ákveðið að skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja og tryggja að þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónusta, geti áfram vaxið. Þá vildi ríkisstjórnin stuðla að því að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í því að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.”

Margt fleira má telja til í þessu sambandi sem undirstrikar nauðsyn þess að þessir tveir fyrrverandi ráðherrar verði látin standa frami fyrir Landsdómi vegna aðgerða sinna og aðgerðarleysis.

Formaður sjálfsæðisflokksins spurði í ræðu sinni á þinginu í morgun hvað menn hefðu eiginlega átt að gera til að stöðva hrunið. Fyrir utan það hvað slík spurning hljómar undarlega úr munni formanns stjórnmálaflokks sem vill láta taka sig alvarlega, þá er svarið við spurningunni meðal annars:

Þau áttu ekki að gera það sem þau gerðu og sögðu á þessum tíma, þau áttu ekki að gera ekki neitt, þau áttu að stjórna landinu og reyna að forða íbúum landsins frá því tjóni sem þeir urðu fyrir, m.a. af völdum þessara tveggja ráðherra.