Forystufólk Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar komu saman í morgun til skrafs og ráðagerða um hugsanlegt ríkisstjórnarsamstarf þessara flokka ásamt Vinstri grænum og einhverjum öðrum. Hvernig ríkisstjórn yrði það?
Þessir fjórir flokkar hafa samtals 28 þingmenn og þyrftu því a.m.k. einn flokk til viðbótar til að mynda ríkisstjórn. Þar sem framsóknarflokkurinn hefur þegar hafnað samstarfi við þessa flokka og Samfylkingin að auki hafnað samstarfi við sjálfstæðisflokkinn koma aðeins tveir flokkar til greina, Miðflokkurinn og/eða Flokkur fólksins. Ekki hefur komið fram hvort rætt hafi verið við annan þeirra eða báða um mögulegt samstarf. Hvort sem heldur þyrfti ríkisstjórn þessara 5-6 flokka að efna til átaka um mörg umdeild mál í samfélaginu sem þeir eru þó ekki allir sammála um. Þessir flokkar hafa hver um sig talað fyrir margvíslegum kerfisbreytingum sem hefur umfram annað aðskilið þá hverja frá öðrum. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að allir flokkarnir gefi eftir öll helstu stefnumál sín. Þannig þyrfti ríkisstjórn þeirra að ráðast í breytingar á landbúnaðar- og sjávarútvegskerfinu, peningakerfinu, stjórnarskrá, gjaldmiðlamálum og fleiru slíku. Þetta yrði því eðli málsins vegna ríkisstjórn samfélagslegra átaka. Ég er ekki sannfærður um að það sé það sem fólk vilji endilega núna auk þess sem efast má um pólitíska styrkleika a.m.k. sumra þessara flokka til að knýja umdeild mál í gegnum þingið. Fyrir utan Samfylkinguna og Vinstri græn eru allir hinir flokkarnir félagslega veikir. Þeir hafa ekki yfir að ráða félagslegu neti flokks/eða stuðningsmanna um landið og bakland þeirra er afar veikt. Sumir þeirra eru lítið annað en hylkið utan um forystufólkið sem gerir þá afar brothætta í samstarfi.
Niðurstaða fundar þeirra þriggja sem hittust í morgun var sú að kynna Katrínu Jakobsdóttur annan ríkisstjórnarmöguleika en nú er ræddur. Það hefur tæplega farið fram hjá þeim að það var fyrsti kostur Katrínar að ræða við þessa flokka en það gekk ekki upp. Það eru því aðrir en hún sem þarf að sannfæra um ágæti þessara hugmynda auk þess sem það vantar fleiri flokka í samstarfið.
Niðurstaða þeirra þriggja í morgun virðist því hafa verið á misskilningi byggð og hugmyndir þeirra að auki óraunhæfar sem stendur.