Í minningu Bjartrar framtíðar

Ég viðurkenni fúslega að ég var laumuaðdáandi Bjartrar framtíðar í upphafi. Mér fannst hugmyndin að stofnun fyrirbærisins athyglisverð og markmiðin háleit. En það rann fljótt af mér og aðdáun mín takmarkaðist eftir það við þá Róbert Marshall og Guðmund Steingrímsson bæði vegna þess fyrir hvað þeir tveir standa en ekki síður vegna þess hvað þeir eru skemmtilegir. Svo hættu þeir.

Það voru ekki margir kostir í stöðunni fyrir Bjarta framtíð í kjölfar kosninganna haustið 2016 eftir að hafa rétt svo marið það að ná fjórum mönnum á þing. Í stað þess að veslast upp og deyja í stjórnarandstöðu völdu þingmennirnir þann kost að fara í vont ríkisstjórnarsamstarf í þeirri veiku von að það gæti hleypt lífi í flokkinn að nýju. Það voru margir til að gagnrýna þá ákvörðun en mér fannst hún að mörgu leyti skiljanleg miðað við aðstæður. Núna, átta mánuðum síðar, slítur Björt framtíð stjórnarsamstarfinu og fær við það nýja líflínu sem flokkurinn mun hanga á í komandi kosningabaráttu. Að mínu mati er það hins vegar of seint. Átta mánuðum of seint. Flokkurinn fékk tækifæri til að sýna sitt rétta pólitíska andlit haustið 2016 og gerði það af miklum myndarskap í samstarfi við sjálfstæðisflokk og Viðreisn. Það gleymist ekki á þeim vikum sem eftir eru fram að kosningum.

En hvort ætli Bjartrar framtíðar verði minnst fyrir að hafa myndað ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar eða fyrir að hafa slitið henni?

Ekki að það skipti öllu máli.