Kvótasetning í ferðaþjónustunni?

Í ræðu sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hélt á ferðaþjónustudeginum í Hörpu í gær ræddi hún m.a. um stýringu á flæði ferðamanna og sagði þá m.a. þetta: „Þjónustusérleyfi að erlendri fyrirmynd eru til skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í þeirri leið felst að ferðaþjónustufyrirtæki sem stunda útgerð inn á náttúruperlur í opinberri eigu, til dæmis þjóðgarða, þurfa til þess sérstakt leyfi, í raun nýtingarleyfi á hina takmörkuðu auðlind, og þessi leyfi eru boðin út.“
Ekki er annað hægt að lesa út úr þessu en að í undirbúningi sé einhvers konar kvótasetning innan ferðaþjónustunnar sambærileg því sem er í sjávarútvegi. Gera má ráð fyrir að þeir aðilar sem  fyrir eru í greininni og hafa þróað þjónustu við ferðamenn fái forskot á nýja aðila, líkt og útgerðir sem fyrstar hófu veiðar og nýtingu á fiskistofnum, s.s. úthafskarfa, síld og makríl. Ráðherra ferðamála virðist einfaldlega vera að leggja til að fyrirtæki „sem stunda útgerð inn á náttúruperlur í opinberri eigu“ fái nýtingarleyfi á náttúru landsins sem væntanlega munu þá á endanum ganga kaupum og sölu milli aðila.
Þetta er stærra mál en svo að það verði aðeins rætt og ákveðið innan ráðuneytis Þórdísar Kolbrúnar og ríkisstjórnar sjálfstæðisflokksins.
Ráðherrann verður að útskýra hvað það raunverulega er sem er í undirbúningi í ráðuneytinu hvað þetta varðar.