Rangur ráðherra og röngum stað

Samkvæmt heimasíðu stjórnarráðsins eru þetta helstu málaflokkar sem heyra undir sjávarútvegsráðuneytið:

1.      Rannsóknir, verndun og stjórn á nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins, sem og stjórnun svæða þar sem þær eru nýtanlegar.
2.     Eftirlit með verndun og nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins, sem og stjórnun svæða þar sem þær eru nýtanlegar.
3.     Stuðningur við rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
4.     Fiskvinnsla og önnur vinnsla úr sjávarfangi.
5.     Uppboðsmarkaður sjávarafla.
6.     Verðlagsráð sjávarútvegsins.

Mér er það hulin ráðgáta hver aðkoma sjávarútvegsráðherra á að vera að lausn kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna. Helst væri það að rótast eitthvað í verðlagsráði sjávarútvegsins eða uppboðsmörkuðum. Ég sé þó ekki fyrir mér að það verði til að sætta deiluaðila.
Sjávarútvegsráðherra hefur ekkert með kjör sjómanna eða starfsskilyrði þeirra að gera. Ráðherrann hefur heldur ekkert að gera með skattamál í landinu, hvorki þau sem snerta sjómenn né aðrar starfstéttir, hvað þá skattamál útgerða. Þeir málaflokkar eru á hendi annars ráðherra.
Sjávarútvegsráðherra á fundi sjómanna og útgerðar er rangur ráðherra á röngum stað.